„Hljóðbókasafn Íslands er fyrir þau sem geta ekki nýtt sér almenningsbókasöfn, sem eru mikilvægur hluti af því að tryggja öllum í lýðræðisþjóðfélagi sama aðgang að upplýsingum,“ segir Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands. „Þau sem eiga erfitt með að lesa prentað mál eru stór hópur og safnið þjónar þeim, en það eru blindir, sjónskertir, lesblindir og fólk sem til dæmis vegna sjúkleika getur ekki haldið á bók.“

Lokað safn og aðeins fyrir ákveðinn hóp

„Safnið hefur verið rekið sem ríkisstofnun síðan árið 1982 og hét áður Blindrabókasafn Íslands, en nafninu var breytt um það leyti sem lesblindir voru orðnir stærsti hópurinn. Það þarf að liggja fyrir vottorð um að viðkomandi geti ekki lesið prentað mál til að geta nýtt þjónustu okkar, þannig að við erum ekki fyrir alla,“ útskýrir Marín. „Lánþegar eru engu að síður um 15 þúsund, svo þetta er töluverður hópur og stærsti hópurinn er lesblindir og sjónskertir. Lesblindum er einfaldlega sinnt betur í dag en áður og við erum í góðum tengslum við sérkennara skólanna. Nú er komin meiri þekking á lesblindu og hún viðurkennd í samfélaginu og þá er frábært að til sé safn eins og þetta sem aðstoðar stóran hóp. Það hefur líka orðið mikil bylting í tækninni almennt, bæði fyrir blinda og þá sem eiga erfitt með að lesa texta.

Safnið uppfyllir samninga varðandi þjónustu við einstaklinga með fötlun og þannig sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi þeirra,“ segir Marín. „Við fundum það sérstaklega vel í Covid, þegar flestir lögðust í Netflix, hvað félagslega hlutverkið okkar er mikilvægt, en þá urðum við oft aðalmiðlun á afþreyingu fyrir stóran hóp sem því miður einangraðist verulega. Það eru mörg sem reiða sig algjörlega á okkur og eins gott að við stöndum okkur.“

Allt safnið í smáforriti

„Á þessum 40 árum sem hafa liðið frá stofnun safnsins hefur tæknin breyst mikið og safnið er orðið mjög tæknivætt. Langflest hlusta í gegnum smáforrit í síma en við erum reyndar líka ennþá að senda geisladiska til þeirra sem það kjósa, því við viljum þjónusta alla og líka þau sem treysta sér ekki til að læra á nýja tækni,“ segir Marín. „En sá hópur fer minnkandi.

Smáforritið okkar er í grunninn danskt og þar er allt safnið og auðvelt að finna bækur. Þar geta öll sem eru skráð hjá okkur hlustað en einnig er hægt að nota vefspilarann eða hringja í okkur og panta geisladiska. Kosturinn við að hlusta í appi eða á vef er sá að þá er auðvelt að hætta bara að hlusta ef fólki líst ekki á bókina, en í gamla daga þegar fólk þurfti að fá sendar segulbandsspólur eða geisladiska var það erfiðara,“ segir Marín. „Þannig að þjónustan hefur í raun stórbatnað.“

Nafnið kannski ekki nægilega gegnsætt

„Það hafa orðið gríðarlegar breytingar í hljóðbókaútgáfu síðustu ár og þær eru orðnar mjög vinsælar. Þessi þróun hefur haft áhrif á okkur, sem er hið besta mál, og við erum farin að kaupa meira af tilbúnum hljóðbókum beint af útgefendum, en árið 2021 voru þær 19% af heildinni,“ segir Marín. „Þetta hefur gerst hratt, því fyrir fimm árum var enginn að gefa út hljóðbækur, en nú eru útgefendur farnir að snúa sér mikið að þeim, sem er frábært. Það þýðir að við getum bent fólki sem leitar til okkar en hefur ekki rétt á að nýta þjónustuna okkar, á þessar bækur. Á litlu málsvæði er líka gott að vera í þessari samvinnu með útgefendum og vonumst við til þess að sá þáttur eigi eftir að aukast.

Þrýstingurinn á að við opnum safnið fyrir alla hefur um leið minnkað. Sumt fólk veit kannski ekki alveg út á hvað starfsemin gengur og áttar sig ekki á að við erum með undanþágu frá höfundarrétti vegna þess að við höfum þessa lögbundnu skyldu að þjóna tilteknum hópi,“ segir Marín. „Við erum til að mynda undanþegin því að greiða höfundarréttargreiðslur. En við gerum grein fyrir útlánum og rithöfundar fá greitt fyrir þau úr deilisjóði bókasafna og eins fá rithöfundar og þýðendur svokallaðar bótagreiðslur.

Þetta er allt útskýrt í 19. grein höfundalaga. Þar sem bókasafnið er ekki rekið í hagnaðarskyni og við erum hjálpartæki fyrir tiltekinn hóp höfum við ýmis réttindi til að gera efni aðgengilegt fyrir þau sem á þurfa að halda,“ segir Marín. „Þetta aðgengi er lykilatriði og nú eru til dæmis öll Norðurlandasöfnin að breyta nöfnum sínum svo að aðgengi komi fram í nafninu. Mér finnst líklegt að það verði gert hér á landi líka, svo það sé kristaltært fyrir hverja við störfum og hvert hlutverk okkar er.“

Sífellt meiri áhersla á aðgengi

„Kjarninn í starfsemi okkar gengur út að gera bækur aðgengilegar fyrir okkar hóp eins fljótt og vel og hægt er. Til að gera það þurfum við að vera vakandi fyrir tækninýjungum og því erum við í ýmiss konar samstarfi við Norðurlandasöfnin,“ segir Marín. „Það er líka komin töluvert rík krafa um að bók sé ekki bara til á hljóðformi, heldur fylgi texti með. Við erum að feta okkur í þessa átt.

Það eru miklar breytingar að verða í löggjöf og til dæmis er Evróputilskipun sem á að taka gildi 2025, sem kveður á um að bók skuli vera aðgengileg frá upphafi, eða „fædd“ aðgengileg. Þá er ábyrgðin sett á útgáfufyrirtækin varðandi aðgengi,“ segir Marín. „Auðvitað verður þetta dýrt fyrir þessi fyrirtæki og erfitt fyrir litlar útgáfur, enda er gert ráð fyrir ýmsum undanþágum í löggjöfinni. Við fylgjumst vel með þessu og kannski mun hlutverk okkar breytast í takti við þessar og aðrar breytingar. Við erum í það minnsta tilbúin að vera stuðningsaðili fyrir útgefendur þegar kemur að aðgengi.

Við leggjum líka gríðarlega áherslu á góða þjónustu og komum sem betur fer mjög vel út úr þjónustukönnunum og erum þakklát fyrir það. Við reynum að vera vel vakandi fyrir því hvernig við nýtum fjármagn sem best og að koma til móts við afar fjölbreyttar kröfur þess ólíka hóps sem við sinnum,“ segir Marín.

Spennusögur, ástarsögur og ekki bara íslenska

„Það sem er vinsælast hjá okkur er á pari við önnur bókasöfn. Á þessum árstíma eru það spennusögur og þægileg sumarlesning sem rennur út. Nýjar ástarsögur eins og Kvöld eitt á eyju eða bakarísbækurnar svokölluðu eru vinsælar, sem og spennusögur eins og Natríumklóríð eftir Jussi Adler-Olsen og Brotin bein eftir Angelu Marsons. Við erum líka nýlega búin að lesa inn Reimleika eftir Ármann Jakobsson og íslensku höfundarnir eru alltaf mjög vinsælir,“ segir Marín. „Við reynum að vera fljót með það sem er helst í gangi, en það tekur um þrjár til fjórar vikur að gera bók aðgengilega og setja inn á safnið og stundum lengur, því miður. Það er töluverð vinna við að gera bækur aðgengilegar og því tekur þetta allt tíma.

Það vita ekki allir að við erum ekki bara með bækur á íslensku, heldur er virkt millisafnalán milli Norðurlandanna og einnig á safnið töluvert af enskum bókum,“ segir Marín. „Fólkið sem við erum að þjónusta á rétt á þessum millisafnalánum og það á ekki að skipta máli hvar í heiminum þú glímir við sjónskerðingu, lesblindu eða annað, nú þegar Ísland og öll hin Norðurlöndin hafa fullgilt Marrakesh-sáttmálann, sem kveður á um að þessi þjónusta eigi að vera möguleg þvert á landamæri.“