Veiga Dís er 24 ára og mikið jólabarn. „Ég hef rosalega gaman af jólunum og öllu í aðdraganda þeirra og finnst þetta alltaf mjög skemmtilegur og huggulegur tími,“ segir Veiga Dís sem viðurkennir að hún hafi sjaldan fengið gjafir sem tengjast iðn hennar beint. „Þegar ég var yngri og nýútskrifuð var verið að gefa mér tommustokka og blýanta, svona minni hluti sem passa í vinnubuxurnar, en ég hef annars lítið fengið af verkfærum í jólagjafir, meira í afmælisgjafir frá fólkinu mínu. Það er meira um að ég hafi fengið græjur að gjöf frá fyrirtækjunum sem ég er að vinna fyrir.“ Hún segir suma vinnuveitendur í bransanum spotta hvað starfsfólk vantar og gefa það í jólagjöf. „En sumir gefa líka gjafabréf og pening, það er allur gangur á því.“

Fljót að velja húsasmíðina

Veiga Dís ákvað ung að gerast húsasmiður. „Pabbi minn, Hans Unndór Ólason, er húsasmiður og ég hef verið að skottast kringum hann frá því ég var lítil stelpa, að þrífa eða handlanga eða bara fylgjast með. En ég ætlaði samt ekkert endilega að feta í hans fótspor. Svo þegar ég var sextán ára fór ég á kynningu í Kórnum á framhaldsskólunum. Þar var básinn hjá Iðnskólanum langstærstur og flottastur og ég datt þar inn og fór að skoða og fann að mér fannst þetta spennandi. Ég tók fullt af bæklingum og þegar ég sá að ég gæti verið jafnlengi í framhaldsskóla og allir jafnaldrar mínir og tekið stúdentspróf en líka sveinspróf um leið var ég fljót að ákveða mig. Það sem heillaði í byrjun var að ég vissi að ég gæti farið beint út á vinnumarkaðinn en væri líka komin með starfsréttindi um allan heim. En svo finnst mér þetta líka mjög skemmtilegt starf og svo skemmdi ekki fyrir að ég þekkti til í húsasmíðinni og fannst hún eiga best við mig.“

Brauðbrettin best

Veiga Dís er mikið í því að búa til jólagjafir á verkstæðinu. „Ég hef búið til bæði brauðbretti og smjörhnífa,“ segir hún og viðurkennir að finnast sérstaklega skemmtilegt að gera brauðbrettin. „Það er hægt að gera þau svo fjölbreytt og margar útfærslur af þeim. Þá lími ég sjálf í brettin, hanna og pússa og geri allt sjálf og alltaf að gera tilraunir og eitthvað nýtt. Ég segi ekki frá því sem ég er að gera núna því það á að koma á óvart.“ Hún segir að sjálf væri hún til í að fá ýmis verkfæri í jólagjöf. „Ef ég mætti velja mér verkfæri fyrir sjálfa mig er margt sem ég væri til í að eignast til að geta sinnt mínum eigin verkefnum betur. Mig langar mjög mikið að eignast góða veltisög eða borðsög og svo langar mig líka mikið í laser hallamál, ég á ekki minn eigin laser. Þannig að ef einhver er að lesa þetta, til dæmis kærastinn minn, þá er ég alveg til í góðan laser. Óþarfi að flækja það. Og svo vantar mig líka gott kúbein, ég á kúbein en væri alveg til í að eiga vandaðra og betra.“

Hallamálin heilla

Veiga Dís lumar á heilræðum fyrir þau sem langar að gleðja iðnaðarmennina í lífi sínu. „Mig langar kannski að stinga því að þeim sem vilja gefa húsasmiðum einhver fagtæki í jólagjöf að margir smiðir eru hrifnir af Hultafors hallamálum og langar að eignast sitt eigið.“ Og svo nefnir hún annað sem leikmenn gera sér sjaldnast grein fyrir. „Ef þú ætlar að gefa iðnaðarmanni verkfæri í jólagjöf þá eru batterísverkfæri mjög vinsæl,“ segir hún og bætir við: „Og þá skiptir mjög miklu máli að vita hvaða merki viðkomandi iðnaðarmaður notar. Ég nota til dæmis Makita en kærastinn minn notar Dewalt þannig að ef hann myndi vanta laser myndi ég alltaf kaupa Dewalt laser handa honum. Ástæðan er sú að það er svo mikilvægt að batteríin hans virki í tækið svo hann sleppi við endalaust vesen með mismunandi batterí og hleðslutæki. Þannig sparar þú bæði peninga og vesen fyrir iðnaðarmanninn sem þú ert að gefa. Það er ekki bara tryggð við merkið sem veldur því að iðnaðarmenn eiga mörg verkfæri frá sama merki heldur líka vegna þess að allt passar saman innan línunnar og það væri óþolandi að vera með fimm mismunandi merki og fimm mismunandi hleðslutæki og batterí í staðinn fyrir að vera bara með nokkur góð batterí og eitt hleðslutæki og geta skipt batteríunum milli tækjanna. Þannig að ef þér þykir vænt um iðnaðarmanninn í lífi þínu, kynntu þér þá hvaða merki viðkomandi notar.“

Barn í vændum

Þessi jólin verða með nokkuð óhefðbundnu sniði hjá Veigu Dís. „Í ár ætlum við að fara til Spánar til tengdaforeldra minna og vera þar yfir jól og áramót. Jólin verða mjög íslensk samt, við borðum góðan mat og verðum saman í rólegheitum, opnum pakka og svoleiðis.“ Næsta ár verður svo viðburðaríkt hjá Veigu Dís en hún á von á barni í maí. „Draumurinn er að smíða sjálf rúmið fyrir barnið, pabbi smíðaði rúmið fyrir mig á sínum tíma svo hann lumar á alls konar ráðleggingum.“