Leikarinn og nú tónlistarmaðurinn Ari Ísfeld gaf á miðnætti út nýtt lag sem ber nafnið Smá smár. Hann segir að lagið sé persónulegt en jafnframt hafi hann líka samið það fyrir leiksýninguna How to make love to a man sem sýnd var í Borgarleikhúsinu í fyrra. Hægt er að hlusta á lagið neðst í fréttinni.

„Það var sýning sem fjallaði um karlmenn og tilfinningar karlmanna. Ég vil alltaf hafa lög í mínum leikritum, bara svona til að sýna hvað ég er flottur að syngja,“ segir Ari í gríni. Í laginu syngur Ari um að hann sé lítill í sér, en að það sé allt í lagi að vera smá smár.

„Við töluðum rosalega mikið um tilfinningar karlmanna í ferlinu við gerð leikritsins og hvað það er í raun mikilvægt sem karlmaður að fá að vera lítill í sér, fá að vera mjúkur, fá að sýna tilfinningar sínar og biðja um knús.“

Ari segist alltaf hafa verið mjúkur maður. „Og grátið mikið og knúsað mikið og fannst það liggja beint við að hvetja aðra karlmenn til þess að opna sig tilfinningalega.“

Einhverjir karlar myndu eflaust fussa og sveia yfir slíkum skilaboðum og vilja harka allt af sér. Ari fellst á að sú menning lifi enn góðu lífi. „Heldur betur. Sérstaklega kannski kynslóð foreldra okkar. Það er lítið verið að opna sig um tilfinningar, en mér finnst það samt vera að breytast á okkar aldri. Alla vega í kringum mig, en kannski lifir maður alltaf í einhverri búbblu.“

Ari segir um að ræða alvöru vetrarlag.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Alltaf sé verið að hvetja karlmenn til þess að opna sig með mismiklum árangri. „Karlmenn eru hvattir til þess að fara til sálfræðings, ræða tilfinningar sínar við vini sína en samt er það einhvern veginn alltaf sama gamla sagan og sjálfsvígstíðni meðal karlmanna því miður enn há.“

Ari segir að lagið sé þrátt fyrir allt persónulegt að miklu leyti. „Lagið hljómar auðvitað eins og mér líði illa og vilji knús og það er auðvitað stundum þannig, að ég vilji knús og líði illa. En ég hef alls ekki verið smeykur við að gefa lagið út af því að það sé eitthvað rosalega persónulegt, þó jú, auðvitað séu þetta tilfinningar sem maður finnur.“

Ari hefur aldrei gefið út lag áður. „Ég samdi lagið í febrúar í fyrra og hef aðeins verið að fikta í því síðan. Þetta er algjört vetrarlag og tilvalið að hlusta á það núna í þessum skítakulda og undir teppi, kveikja á kerti og gráta smá.“

Sjálfur samdi hann laglínu og textann og fékk síðan Magnús Jóhann Ragnarsson vin sinn sér til aðstoðar áður en hann leitaði til annars félaga, gítarhetjunnar Reynis Snæs Magnússonar sem gerði lagið. „Þetta var algjört samvinnuverkefni, ég kann líka ekkert sjálfur,“ segir Ari hlæjandi.

„Ég er virkilega spenntur að sjá hvernig fólki líst á þetta og geri fastlega ráð fyrir því að halda tónleika í Eldborg von bráðar. Þetta verða mjög stuttir tónleikar enda spila ég bara þetta eina lag. Hendi kannski remix-i inn í þetta líka,“ segir Ari enn hlæjandi.