Lífræn landbúnaðarframleiðsla og sala á lífrænni matvöru er meiri nú en nokkru sinni fyrr og eftirspurn eftir lífrænum vörum eykst sífellt. Markaðsvirði lífrænnar matvöru er orðið meira en 13 þúsund milljarðar króna á heimsvísu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem ber heitið „Heimur lífræns landbúnaðar 2020“ og var gefin út af Alþjóðlegri rannsóknarstofnun lífræns landbúnaðar (FiBL) og Alþjóðasambandi lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM).

Þessa stöðugu aukningu í eftirspurn eftir lífrænum matvörum má rekja til aukinnar meðvitundar neytenda um áhrif neysluhátta þeirra á heilsuna og umhverfið, sem hefur orðið til þess að fleiri velja lífrænt en nokkru sinni áður. Eftirspurnin hefur aukist um tæplega 16 prósent á innan við hálfum áratug.

Met í framleiðslu og sölu

Aldrei áður hefur eins stór hluti ræktunarlands verið nýttur í lífræna matvælaframleiðslu og það hefur aldrei áður selst jafn mikið af lífrænum matvælum.

Skýrslan er byggð á gögnum frá 186 löndum og sýnir að markaðsvirði lífrænnar matvöru varð meira en 13 þúsund milljarðar króna árið 2018 og enn mælist vöxturinn á mörgum lykilmörkuðum í tveggja stafa tölum.

Landsvæðið sem fer undir lífrænan landbúnað hefur stækkað um tæplega 3% á hverju ári og er nú komið upp í um 715 þúsund ferkílómetra. Indland er það land sem hefur flesta bændur sem stunda lífrænan landbúnað, en lífrænn landbúnaður fer líka fram á stórum svæðum í Ástralíu og Kína.

Indland er það land sem hefur flesta bændur sem stunda lífrænan landbúnað, en lífrænn landbúnaður fer líka fram á stórum svæðum í Ástralíu og Kína.

Þessar niðurstöður ríma við það sem kom fram í annarri nýlegri skýrslu frá fyrirtækinu Grand View Research, sem veitir ráðgjöf varðandi markaðssetningu. Þar var því spáð að lífræn matvælaframleiðsla yrði meira en 26 þúsund milljarða króna virði fyrir lok ársins.

Hollara fyrir okkur

Vísindarannsóknir hafa komist að þeirri niðurstöðu að lífræn matvælaframleiðsla stuðli að sjálfbærni.

Þegar ekki er notast við tilbúinn áburð, skordýraeitur eða sveppaeyðandi efni eykst líffræðilegur fjölbreytileiki og jarðvegur verður næringarríkari, auk þess sem mengun minnkar. Ýmis ólífræn efni sem eru notuð í hefðbundnum landbúnaði valda stórum hluta af mengun og kolefnislosun iðnaðarins.

Í hollenskri rannsókn frá síðasta ári sem var unnin við háskólann í Twente var líka komist að þeirri niðurstöðu að lífrænn landbúnaður geti hjálpað til við að ná alþjóðlegum sjálfbærnimarkmiðum, sérstaklega hvað varðar baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

Sífellt fleira fólk velur lífrænar matvörur. Eftirspurnin hefur aukist um tæplega 16 prósent á innan við hálfum áratug og það er fastlega gert ráð fyrir að hún haldi áfram að aukast mikið á næstu árum. MYNDIR/GETTY

Lífrænum matvælum er líka oft hampað fyrir hollustu sína, en niðurstöður nýlegrar rannsóknar frá Tækniháskólanum í Graz í Austurríki sýndu til dæmis að lífræn epli innihéldu meira af bakteríum sem eru hollar fyrir meltinguna og að þær væru í betra jafnvægi en í hefðbundnum eplum.

Styður aukna sjálfbærni

Þessi tengsl milli hollustu, heilsu og lífrænna matvæla eiga líklega eftir að auka enn eftirspurnina, sérstaklega í Asíu, þar sem neytendur hafa almennt mikinn áhuga á næringarríkum og öruggum matvælum.

Þessi þróun í lífrænum landbúnaði er því líkleg til að styðja við sjálfbærari og heilbrigðari matvælaframleiðslu um allan heim. Sérstaklega í Asíu, þar sem ekki gengur mjög vel að ná öllum sjálfbærnimarkmiðum. Það er full þörf á að gera allt sem hægt er til að tryggja aukna sjálfbærni og þar getur lífrænn landbúnaður komið að gagni.