Harpa Þorvaldsdóttir, tónlistarkona og tónmenntakennari, er fædd og uppalin á Hvammstanga. Hún bjó líka lengi í Salzburg í Austurríki þar sem hún lauk meistaragráðu í óperusöng. Í kvöld býður hún til tónleika í Kornhlöðunni í tilefni af fyrstu útgáfu hljómsveitarinnar Brek sem Harpa segir alveg geðveikt skemmtilega og spilar akútíska, þjóðlagaskotna tónlist.

Heima er best …

… vegna þess að þar er fólkið mitt og kaffivélin mín. Fólkið mitt er kærastinn minn, Guðmundur Atli Pétursson mandólínleikari í Brek, og börnin okkar þrjú. Ég á tvær stelpur úr fyrra hjónabandi og hann einn strák.

Hvaða hlutur er ómissandi til að þér líði eins og heima?

Kaffivélin er það sem fyrst kemur upp í huga minn; algerlega ómissandi.

Ertu húsleg í þér?

Móðir mín segir mig mikinn kvenkost. Það var það fyrsta sem hún sagði við kærastann minn þegar þau hittust.

Við hvaða aðstæður finnst þér heimilislegasta upplifunin?

Þegar allir eru heima í ró og notalegheitum.

Harpa nýtur útsýnis yfir fagran Fossvoginn og Reykjavík úr stofunni heima. Hún segir gott að búa í Kópavogi en þangað flutti hún í byrjun vetrar með kærastanum sínum, Guðmundi Atla og þremur börnum þeirra. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Hvernig myndirðu lýsa heimili fjölskyldunnar?

Andrúmsloftið er afslappað og hlýlegt. Enginn ákveðinn stíll en stofuveggurinn með Drápuhlíðargrjótinu setur óneitanlega ákveðinn tón.

Hvað langar þig í næst til að fullkomna heimilið?

Er að bíða eftir því að fá til okkar gamla píanóið sem ég lærði á heima á Hvammstanga. Það verður notalegt.

Hvaða mat eldarðu oftast og hvaða köku bakarðu oftast?

Ég elda nú alls konar en í bakstri er ég að mastera súrdeigsbrauðið. Kakan væri samt sennilega Pavlova.

Það er óvenjulegt að sjá heilan vegg af Drápuhlíðargrjóti innanhúss og ægifagurt hvernig birtan leikur sér í grjótinu. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Hvert er uppáhalds húsverkið?

Sennilega að moppa yfir gólfin … þoli ekki musl.

Hvaða veganesti fékkstu í búskapinn að heiman?

Að halda hlutunum í röð og reglu án þess þó að missa sig. Ég hef aldrei verið talin sérlega skipulögð.

Hvað keyptirðu síðast til heimilisins?

Fallega túlípana.

Í hvaða framkvæmdir fóruð þið síðast?

Að flytja inn, mála og pússa gólf. Við fluttum í Kópavoginn í lok nóvember og ætli íbúðin hafi ekki orðið til þess að við fluttum hingað þó svo að maður hafi alltaf heyrt að það sé gott að búa í Kópavogi.

Kaffivélin er ómissandi til að gera allt heimilislegt. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Hvaða staður heima er í mestu dálæti?

Eftirlætisstaðurinn er klárlega í sófanum við Drápuhlíðarvegginn með þetta dásamlega útsýni yfir Fossvoginn og Reykjavík. Og auðvitað góðan kaffibolla með. Ég hef ekki séð svona Drápuhlíðargrjót á heilum vegg inni í stofu áður en það hafði klárlega áhrif á ákvörðun okkar um að kaupa þessa íbúð. Við vissum það strax og við komum hingað inn að þetta var eitthvað sem passaði okkur einstaklega vel.

Hvað vildirðu hafa hér heima frá Hvammstanga?

Afslappað andrúmsloftið sem ég ólst upp við. Foreldrar mínir búa þar enn og það er ómetanlegt að geta farið heim, í heimsókn, til að hlaða batteríin. Mér þykir ofboðslega vænt um bæinn minn og tala alltaf um að fara heim á Hvammstanga. Annað væri væntanlega sundlaugin sem er ein sú allra besta að mínu mati.

Hvað gerist næst?

Það er sko nóg að gera. Hljómsveitin mín, Brek, verður með tónleika í Kornhlöðunni í kvöld klukkan 20.30 í tilefni af fyrstu útgáfu hennar. Ég hvet alla til að koma og hlýða á nýja íslenska tónlist. Svo er ég að skipuleggja viðburðinn Syngjum saman í Hannesarholti og er annan hvern sunnudag. Það er dásamleg stund þar sem fólk kemur og syngur saman undir stjórn ólíkra tónlistarmanna. Mæli með því.

Annars er ég líka alltaf með vikulegar söngstundir með eldri borgurum á Hrafnistu í Reykjavík auk þess að starfa með krökkunum í Laugarnesskóla. Það er því óhætt að segja að ég sé syngjandi alla daga, með ungum sem öldnum, og er það vel því söngurinn hressir, kætir og bætir.

Hvernig tónlist er viðfangsefni Brek?

Hljómsveitin Brek samanstendur af gítar, kontrabassa, mandólíni og píanói. Ég er söngkona og píanóleikari í hljómsveitinni en við syngjum líka öll og viljum leika okkur með raddirnar. Ef hægt er að lýsa tónlistinni á einhvern hátt er hún þjóðlagaskotin, í ætt við söngvaskáldin með dassi af popp elementum líka. Ég held ég geti sagt að hún sé ólík mörgu sem er í gangi í íslenskri tónlist akkúrat núna en við erum mjög hrifin af akkústísku andrúmslofti. Það að við séum með mandólín innanborðs gerir hljóðheiminn líka spennandi.

Við Jói gítarleikari stofnuðum bandið 2018 en Guðmundur Atli madólínleikari kom mjög fljótt inn í það. Nú í janúar fengum við svo bassaleikarann Sigmar Þór Matthíasson til liðs við okkur og erum sérlega spennt fyrir framtíðinni og margt í gangi.