Eftir margra ára bið geta aðdáendur Omnom súkkulaðisins og aðrir sælkerar landsins loks fjárfest í páskaeggi frá fyrirtækinu. Páskaeggið er þó ekki hefðbundið egg í stíl við þau sem fást hér á landi heldur ilmandi og bragðgóð súkkulaðikanína sem hefur fengið heitið Mr. Carrots segir Kjartan Gíslason, annar stofnenda Omnom og súkkulaðigerðarmaður. „Mr. Carrots er handgerð 300 gramma súkkulaðikanína og höfum við lagt mikla ást og umhyggju í að búa hana til. Ekki láta pirraða ásýnd hennar blekkja ykkur. Þetta er mjög hamingjusöm kanína sem elskar gulrótarkökur. Upphaflega ætluðum við að framleiða eigin páskaegg en svo fannst okkur það ekki passa við okkur. Það lá því beinast við að hefja framleiðslu á kanínum enda tengja flestir hana við páskana, fyrir utan gula kjúklinginn.“

Fáanleg með lakkrísbragði

Mr. Carrots súkkulaðikanínan verður eingöngu fáanleg með lakkrísbragði í ár og í mjög takmörkuðu upplagi. „Lakkríssúkkulaðið okkar er mesta selda súkkulaðið frá okkur. Ef kanínan selst vel stefnum við á að bæta við tveimur bragðtegundum á næsta ári. Kanínan verður fyrst og fremst seld í vefverslun okkar en hugsanlega á öðrum sölustöðum, það skýrist betur á næstu vikum. Við munum setja á fót sérstakan viðburð rétt fyrir páska þar sem viðskiptavinir okkar sækja nýframleiddar súkkulaðikanínurnar sínar. Þær verða afhentar í mjög fallegu boxi og ég er viss um að útlit hennar og boxins eigi eftir að koma skemmtilega á óvart, enda búið að leggja mikla vinnu í smáatriðin. Við erum að minnsta kosti mjög stolt og hlökkum til að sjá viðbrögðin.“

Stefnt á 2.000 kanínur

Hver kanína er handgerð og því mikil vinna lögð í hverja þeirra segir Kjartan. „Við erum lítið framleiðslufyrirtæki og sníðum okkur stakk eftir vexti. Þegar framleiðslan fer á fullt þurfum við t.d. að stöðva framleiðslu á öðrum vörum okkar. Stefnan er sett á um 2.000 kanínur þetta árið og vonandi verða þær mun fleiri á næsta ári.“

Nýjungar og gamlir vinir

Auk páskakanínunnar eru ýmsar nýjungar væntanlegar frá Omnom auk gamalla vina. „Við settum t.d. nýlega á markað nýtt bragðmikið súkkulaði sem inniheldur 100% súkkulaði úr hreinum kakóbaunum án viðbætts sykurs. Svo erum við farin að huga að jólavertíðinni. Þar ætlum við t.d. að kynna til leiks gamla kunningja sem eiga vafalaust eftir að gleðja marga. Þar má nefna eitt umtalaðasta súkkulaði okkar Spiced White + Caramel sem margir muna vel eftir. Það verður gaman að sjá viðbrögð neytenda við þessum gömlu og vinsælu vörum okkar.“