Elísa­bet Bret­lands­drottning hitti hvern og einn for­sætis­ráð­herra einu sinni í viku þau sjö­tíu ár sem hún gegndi stöðu drottningar. Fimm­tán manns gegndu em­bættinu í hennar tíð.

Guð­ný Ósk Lax­dal, sér­fræðingur í bresku konungs­fjöl­skyldunni, ræddi málið í fyrsta þætti af Crown­varpinu, við­hafnar­hlað­varpi Frétta­blaðsins um fimmtu seríuna af The Crown.

Eins og les­endur vita gegna sam­töl Elísa­betar við for­sætis­ráð­herrana lykil­hlut­verki í drama­þáttunum frægu. Guð­ný segir að höfundur þáttanna Peter Morgan hafi alla tíð haft mikinn á­huga á sam­tölunum.

„Þetta er í raun bara hans sýn á þessi sam­töl og hann hefur skrifað leik­rit um þessa fundi. Þetta eru fundir þar sem enginn veit hvað fer fram,“ segir Guð­ný.

„Í hverri viku er alltaf þessi fundur á milli þjóð­höfðingjans og for­sætis­ráð­herra. Í Co­vid var þetta gert í gegnum síma og ef drottningin fer eitt­hvert, til dæmis til Skot­lands þá ferðast for­sætis­ráð­herrann bara þangað líka.“

Guð­ný segir að eftir að Elísa­bet hafi látist hafi ör­lítið kvisast út um hvað hafi farið fram á milli hennar og for­sætis­ráð­herra hennar. „En það hefur aldrei neitt verið skrifað niður.“

Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spoti­fy undir merkjum Bíó­varpsins.