Elísabet Bretlandsdrottning hitti hvern og einn forsætisráðherra einu sinni í viku þau sjötíu ár sem hún gegndi stöðu drottningar. Fimmtán manns gegndu embættinu í hennar tíð.
Guðný Ósk Laxdal, sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni, ræddi málið í fyrsta þætti af Crownvarpinu, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um fimmtu seríuna af The Crown.
Eins og lesendur vita gegna samtöl Elísabetar við forsætisráðherrana lykilhlutverki í dramaþáttunum frægu. Guðný segir að höfundur þáttanna Peter Morgan hafi alla tíð haft mikinn áhuga á samtölunum.
„Þetta er í raun bara hans sýn á þessi samtöl og hann hefur skrifað leikrit um þessa fundi. Þetta eru fundir þar sem enginn veit hvað fer fram,“ segir Guðný.
„Í hverri viku er alltaf þessi fundur á milli þjóðhöfðingjans og forsætisráðherra. Í Covid var þetta gert í gegnum síma og ef drottningin fer eitthvert, til dæmis til Skotlands þá ferðast forsætisráðherrann bara þangað líka.“
Guðný segir að eftir að Elísabet hafi látist hafi örlítið kvisast út um hvað hafi farið fram á milli hennar og forsætisráðherra hennar. „En það hefur aldrei neitt verið skrifað niður.“
Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.