Guð­mundur Ingi Þor­valds­son hefur leikið fjölda hlut­verka bæði hér heima og er­lendis. Hann lék ný­verið lykil­hlut­verk í tölvu­leiknum Assassins Creed Val­halla og er gestur í nýjasta þætti Sölva Tryggva­sonar.

„Þetta er svo of­boðs­lega stórt að maður gerir sér enga grein fyrir því. Ég skildi í raun ekkert hvað þetta var þegar ég fór í prufuna fyrir þetta hlut­verk.

En að fara inn í þennan heim og hitta allt þetta fólk sem er að vinna að þessu er í raun sturlun. Þegar þeir sem standa að tölvu­leiknum gáfu út tra­ilerinn fyrir leikinn fengu þeir 100 milljón á­horf á fyrsta sólar­hringnum! Mont­real, þar sem þetta var tekið upp, er ein af höfuð­borgum
tölvu­leikja­iðnaðarins,“ segir Guð­mundur hjá Sölva.

Minnti mest á leik­sviðið

„Ég held að það hafi verið á bilinu sex til átta ÞÚSUND manns búin að vinna að þessu í þrjú ár þegar við komum inn. Þegar maður fer inn í höfuð­stöðvarnar fer maður upp hæð eftir hæð eftir hæð og sér for­ritara eins langt og augað eigir. Það er rúss­neskt úti­bú sem gerir ekkert annað en að sjá um dýrin í leiknum,“ segir Guð­mundur.

Það tók Guð­mund svo­lítinn tíma að venjast því að leika þetta hlut­verk, enda öðru­vísi en að leika á sviði eða í bíó­myndum:

„Þetta minnti mig mest á að æfa fyrir það að leika á sviði. Þú ferð í þröngan galla og svo eru svona litlir ljós­næmir punktar úti um allt og svo ferðu inn í rými sem er eins og leik­fimi­salur og það eru mynda­vélar alls staðar sem eru að pikka upp þessa ljós­næmu punkta.

Svo sérðu þig bara á skjá sem fjólu­bláa punkta sem hreyfast í leik­mynd sem þú sérð á stórum skjá. Svo er maður með hjálm með fjórum mynda­vélum sem taka stans­laust upp, vegna þess að sá sem er að spila leikinn á alltaf að geta snúið sér hvert sem er. Þannig að þetta er ekki eins og þegar það er verið að taka upp bíó­mynd og það koma pásur.

Að því leiti er þetta líkara því að vera á sviði, af því að þú ert alltaf „on.“ En þetta var mjög skrýtið fyrst. Að vera með mót­leikarann á móti sér og við báðir með hjálm í ein­hverjum göllum, en svo venst þetta og var mjög skemmti­legt.“

Klám­fíkn al­vöru vanda­mál

Guð­mundur Ingi talar í þættinum líka um tíma­bil þar sem hann var í basli með sjálfan sig vegna klám- og tölvu­leikjafíknar. Hann segir nauð­syn­legt að opna þessa um­ræðu, enda sé klám­fíkn orðin að al­vöru vanda­máli hjá stórum hópi ungra karl­manna:

„Ég held að þér geti liðið mun betur eftir að hafa fengið þér mikið vín eða kókaín, heldur en ef þú hefur legið í að horfa á klám. Svo býr þetta líka til rosa­legan frammi­stöðu­kvíða og maður heyrir að hluti af ungum drengjum treysti sér hreini­lega ekki í al­vöru kyn­líf af því þeir hafa horft á of mikið af klámi," segir Guð­mundur og heldur á­fram:

„Sem betur fer eignaðist ég ekki tölvu fyrr en 1998. Af því að þá missti ég dáldið tökin. Ekki bara klám, heldur fer ég líka að spila mikið tölvu­leiki. Þetta var árið sem ég út­skrifaðist úr leik­listar­skólanum.

Ég á nokkur ár strax eftir út­skrift þar sem ég var ekki á góðri leið. Það gekk svo langt að ég hringdi mig inn veikan í leik­húsið af því að ég var ekki búinn með ein­hvern tölvu­leik..... Hjá mér byrjar þetta mjög sak­laust.

Ég var í sveit og það var alltaf mikið af vinnu­mönnum og klám­blöð undir rúmum og auð­vitað kom fyrir að maður var einn heima að leika og sá ein­hver blöð undir dýnum þegar maður var að leika. Sumt af þessu var mjög sak­laust, eins og brandara­blöðin sem voru með teikningum og tígul­gosinn, sem var með erótískum sögum og myndum.

Ég man að ég las stundum upp­hátt úr þessu fyrir les­blindan frænda minn þegar við vorum 10-12 ára gamlir. Svo man ég að fyrst var keypt eitt video-tæki á Reyk­holts­staðinn sem svo var lagður kapall frá í öll húsin í kring...svo voru menn að stelast til að setja í hryllings­myndir og klám­myndir á næturna.

En svo þegar Video-tækin fóru að koma inn á heimilin al­mennt gerist það svo að við vinirnir fundum alltaf ein­hverjar spólur hér og þar og fórum að stelast til að horfa á klám­myndir.

En ég man að þegar strákarnir vildu svo hittast og horfa á þetta saman þegar ein­hver var einn heima vildi ég ekki vera með í því, en vildi svo vera einn í mínu horni að gera það sama.“

Þorði ekki að segja neinum frá

Guð­mundur segir að það sem hafi sett hann í vand­ræði hafi verið ein­angrunar­hegðun, sem er mjög oft það sem býr til fíkni­vanda:

„Það sem síðan býr til vandann er að þetta er allt eitt­hvað sem er verið að gera í felum og maður þorði ekki að segja neinum frá. Það sem býr til þessa skömm er að maður er alltaf að gera þetta í ein­rúmi.

Svo fer maður út í lífið með þá hug­mynd að konur séu annars vegar klám­mynda­drottningar og hins vegar guðum líkar verur eins og mæðurnar og ömmurnar í sveitinni sem sáu um heimilin.

Og þetta er ekki góð blanda ef maður gerir sér síðan ekki grein fyrir að raun­veru­leikinn er að­eins öðru­vísi. Þessi klám­væðing í bland við skömmina og slæmar hug­myndir um karl­mennsku ertu kominn með hræði­lega blöndu fyrir unga stráka.“