Áhrifavaldurinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, eða Gveiga eins og hún kallar sig á Instagram býr í einu litríkasta húsi landsins, nánar tiltekið í Vestmannaeyjum.

Eins og glöggir fylgjendur hennar vita er Gveiga afar litaglöð, en hún tók nýlega upp á því að mála veggi heimilisins í öllum regnsbogans litum, og fá innanstokkmunir ekki að sleppa frá litadýrðinni.

Guðrún Veiga segist hafa alla tíð verið ansi litríkur, maximalisti, eins og hún orðar það, en hafi aldrei tekið á skarið hvað varðar heimilið.

„Það var einn gráan og hrollkaldan dag í febrúar síðastliðinn sem ég hugsaði, ú, ég mála eldhúsið bleikt. Örlítil hvatvísi en hún er stundum nauðsynleg,“ segir Guðrún Veiga sem fór rakleiðis í Húsasmiðjuna og kom út með bleikasta litinn sem hægt var að blanda.

Að sögn Guðrúnar Veigu ætlaði hún að láta bleika litinn duga, en það hafi komið upp einhver æsingur í henni sem enn er til staðar, nú sex vikum síðar.

„Síðan þá hefur neðri hæðin fengið á sig fjólubláan, ferskjulitaðan, túrkís, gulan og bleikan lit. Efri hæðin, er með límónugrænan lit, bleikan, meira af fjólubláum, dökkbleikum, gulum og ég er ekki hálfnuð með hæðina enn þá,“ segir Guðrún Veiga og bætir við að hún geti staðfest að þetta litríka umhverfi hefur geðbætandi og sálarlyftandi áhrif.

„Nema þegar ég skipti um skoðun og mála sama vegginn eða hlutinn þrisvar í mismunandi lit - það er ekki alveg eins bætandi fyrir huga, sál og geð.“

Skærgrænn, gulur og fjólublár er skemmtileg samsetning.
Mynd/Samsett
Hlébarða mynstur kemur víðs vegar fyrir á heimili Guðrúnar Veigu.
Mynd/Samsett

Klínir límfilmum á allt

Guðrún segir að hún hafi verið svolítið, eins og óð kona, með hina ýmsu liti af spreyjum, sem og stórfjárfestingarkona í filmuiðnaðinum, þar sem hún er kaupir mikið af límfilmum, „til að filma allt sem ég mögulega get klínt filmu á,“ segir hún.

Maðurinn ekki heima til að stoppa hana

„Maðurinn minn hefur verið svona misjafnlega hress í ferlinu. Hann er sjómaður og ekki heima til þess að stoppa mig. Ég er líka lítið í því að bera hlutina undir hann fyrr en ég er

byrjuð að framkvæma. Það er mikið þægilegra að biðjast afsökunar en að biðja um leyfi,“ segir Guðrún Veiga og bætir við að hún fylgi einni reglu til þess að mega að hafa skoðanir á innvolsi hússins.

„Ég þarf að sofa minnst 250 nætur í húsinu á ári. Ég væri reyndar að skrökva ef ég segði að hann hefði skrifað undir þessa reglu,“ segir hún.

„Ég veit hann svitnaði töluvert við það að skoða Instagram reikninginn minn við upphaf framkvæmda, einhvers staðar úti á hafi og það kæmi mér ekki á óvart að hann hafi fundið sig knúinn til að fiska sprengitöfluglas úr lyfjakassanum um borð þarna á tímabili,“ segir Guðrún á kómískan hátt.

Að sögn Guðrúnar fannst henni hún sjá lífsneistann í augum eiginmannsins dofna örlítið þegar hann sá bleika eldhúsið með eigin augun, „eftir því sem dagar og vikur liðu og fleiri veggir fengu lit þá mildaðist hann eitthvað gagnvart þessu eða kannski sá að ég yrði líklega ekki stoppuð svo auðveldlega af.“

Guðrún vill meina að hann sé jafn litríkur og hún, „það er bara dýpra á því. Hann skrifar reyndar ekki svo fúslega undir þá fullyrðingu.“

Mynd/Guðrún Veiga

Guðrún Veiga elskar gulan og ákvað að gifta sig í gulum brúðarkjól, og eiginmaðurinn með gult bindi í stíl.