Unnusti Eddu er Ríkharður Daðason og saman eiga þau fjögur börn, hann eitt frá fyrra sambandi og Edda tvö. Fyrr á þessu ári eignuðust þau sitt fyrsta barn saman, drenginn Eið Daða. „Ég hef alltaf haft gaman af því að dunda mér í eldhúsinu enda er það hjarta heimilisins. Eldhúsið er eins og segull á alla fjölskyldumeðlimi þar sem við ræðum allt sem brennur á okkur eftir daginn. Jólin eru því einstaklega ljúf þegar við njótum þess að baka saman og borða góðan mat.“

Aðspurð segist Edda ávallt taka smá forskot á aðventuna og desembermánuður fari meira í að njóta. „Við tökum venjulega smá forskot á aðventuna um miðjan nóvember. Setjum þá upp jólaseríur til að lífga upp á skammdegið og byrjum að baka fyrstu smákökurnar. Það er síðan önnur saga að kökurnar hverfa jafnóðum svo það er ágætis álag á ofninum þessar vikur til að viðhalda framboðinu. Enda er fátt betra en baksturslyktin. Það er líka mikilvægt að einangra líkamann vel með kökuáti í desember í kuldanum, þá er líka komið ljómandi fínt verkefni strax í janúar.“

Edda leggur mikið upp úr því að hafa hlýlegt heima allan ársins hring og kertin spila þar stórt hlutverk. „Almennt byrja ég alla daga á því að kveikja á kertum, nánast áður en ég næ að opna augun, en í desember leyfist manni að margfalda kertafjöldann, sem hentar mér mjög vel. Ég hef í raun aldrei skilið loftljós, mörgum til mikils ama. Annars snýst skipulagið í desember að mestu um að skipuleggja sem minnst. Ég nota því nóvember vel til að klára flestar gjafir svo desember verði rólegur og notalegur.“

Konfektsmákökurnar hennar Eddu eru girnilegar með jólalegu ívafi, sem erfitt er fyrir sælkera að standast. Það er einfalt að útbúa þær.

Jól með nýjum fjölskyldumeðlim

„Ég nýt aðventunnar alltaf meira með hverju árinu. Þetta er tími sem maður vill njóta sem mest með börnunum, en á heimilinu eru þrír eldri krakkar sem taka mikinn þátt í öllu með okkur. Við erum öll jafn spennt að baka og spila og svo er það alltaf árlegt bíómyndamaraþon. Ég setti jólatréð upp mun fyrr núna en venjulega, því það verður allt svo fallegt og hátíðlegt með tré í stofu með tilheyrandi lykt. Lengi hefur það líka fylgt jólunum að fara á jólatónleika og eru Baggalútur og Páll Óskar og Mónika í miklu uppáhaldi, eins og heyrist nær daglega í græjunum á heimilinu. Í ár er sérstaklega mikil eftirvænting að njóta jóla og aðventu með nýjum fjölskyldumeðlim sem kom í heiminn í sumar, en hans helsta áhugamál er að horfa á öll jólaljósin og dást að systkinum sínum.“

Samtaka í afslöppuðum jólum

Heldur þú í ákveðnar jólahefðir og siði?

„Eins og margir aðrir vil ég halda í þær hefðir sem maður hefur alist upp við og á fallegar minningar um. Þegar við Rikki fórum að búa saman kom í ljós að margar hefðir voru svipaðar hjá okkur, eins og jólamaturinn sem okkur finnst gaman að undirbúa saman. Eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar við héldum okkar fyrstu jól var að fá uppskrift frá mömmu hans að kökum sem hafa alltaf verið hans uppáhald, sumt verður að haldast heilagt. Við höfum síðan haft gaman af því að búa til okkar eigin hefðir en erum mjög samtaka í því að hafa afslöppuð jól.“

Blóð, sviti og tár fyrir alla að klára grautarskálina á jólum

„Okkur finnst mjög skemmtileg hefð að skreyta jólatréð með krökkunum og þá fer á tréð ýmislegt sem þau hafa föndrað í gegnum tíðina eins og perlað skraut. Við skrifum líka jólakort á hverju ári, jú, jú, á pappír, og skálum í púrtvínsstaupi með skrifunum. Okkur þykir svo vænt um að fá kort sjálfum og finnst gaman að senda öðrum kveðjur. Síðan hefur orðið til skemmtileg hefð á undanförnum árum, þar sem ég og bróðir minn mætum til foreldra okkar með fjölskyldurnar í möndlugraut á aðfangadag. Það er keppnisskap í fólki og því mikill æsingur yfir hver fær möndluna, en það er bannað að ljóstra upp um möndluna fyrr en grautarskálin er búin. Það liggja því oft margir undir grun og það er blóð, sviti og tár fyrir suma að reyna að klára grautarskálina upp til agna til að freista þess að mandlan finnist.

„Ég er mjög spennt að komast í jólabækurnar í ár en það er mikið um bækur í jólapökkunum og því gaman að opna nýja bók fyrir háttinn á aðfangadagskvöld. Þessa dagana dunda ég mér við að hlusta á ævisögu Angelu Merkel og les glæpasögu eftir Ragnar Jónasson, sem er góð blanda þar til ég kemst í jólabækurnar. Á stofuborðinu hjá mér er síðan nýja bókin eftir leirlistakonuna Margréti Jónsdóttur, sem er í miklu uppáhaldi, og dóttur hennar Móheiði Guðmundsdóttur, sem gáfu út bókina Desember. Einstaklega falleg bók með fallegum myndum, um allt sem tengist aðventunni.

„Almennt byrja ég alla daga á því að kveikja á kertum, nánast áður en ég næ að opna augun, en í desember leyfist manni að margfalda kertafjöldann, sem hentar mér mjög vel,” segir Edda.Serbl_Myndatexti:FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Áttu þér einhverja fallega minningu sem tengist jólunum?

„Fyrstu jól barnanna og gleðisvipurinn þeirra á aðfangadag eru ljúfar minningar. Ekki síður í gegnum árin þegar þau eru að gefa sínar gjafir sem þau hafa búið til – það eru svo fallegar minningar. Eftirvæntingin er svo mikil að sjá hvað mömmu og pabba finnst um gjafirnar. Mögulega hefur það þó gerst að sama gjöfin hafi verið gefin tvö ár í röð en það gladdi þó alveg jafnmikið í annað skiptið. Þetta eru hvort eð er skemmtilegustu gjafirnar sem prýða veggi og hillur um allt hús. Síðustu jól voru líka mjög falleg, þegar krakkarnir opnuðu einn aukapakka og komust að því að það væri lítill bróðir á leiðinni. Þessu var fagnað eins og þau hefðu unnið stórmót með miklum látum og hoppum um allt hús.

Heitt súkkulaði og jólakræsingar

Hver er uppáhaldsjólamaturinn þinn?

„Við erum mjög íhaldssöm og borðum alltaf hamborgarhrygg á aðfangadag með sykruðum kartöflum, heimagerðu rauðkáli og waldorf-salati. Ég viðurkenni að þrátt fyrir að ég sé vön að elda þá er alltaf smá frammistöðukvíði fyrir þessari máltíð. Því hef ég bætt við þeirri hefð að halda litlu jól í október þar sem ég tek smá æfingarennsli með þessa máltíð. Mögulega er það líklegast afsökun til að fá hamborgarhrygg og sykraðar kartöflur tvisvar á ári. Í aðdraganda jóla finnst mér síðan mjög gott að eiga alltaf tvíreykt hangikjöt með heimagerðu piparrótar- og eplasalati.

Uppáhaldsdagurinn minn yfir jólin er jóladagur þegar allir vakna seint og njóta þess að vera á náttfötunum að lesa bækur og horfa á bíómyndir. Ég ólst upp við þá hefð að vakna við heitt súkkulaði og að allar helstu jólakræsingar væru teknar fram á fallegt jólaborð. Mér finnst gaman að halda í þessa hefð frá mömmu minni. Ég smyr þá flatbrauð og soðið brauð og finn svo til allar kökusortir sem renna ljúflega niður með heita súkkulaðinu. En það er algjör skylda að mæta í náttfötum að borðinu.“

Edda deilir hér með lesendum uppskrift að uppáhaldsjólasmákökunum, sem eru í raun konfektsmákökur. „Smákökusmekkurinn hefur breyst mikið í gegnum árin og núna heilla mest smákökur sem eru vissulega sætar en ekki dísætar. Konfektsmákökurnar eru þær kökur sem við byrjum alltaf að baka og með þeim er jólaundirbúningur hafinn. Þær eru góðar í krukku en bestar úr ísskápnum með ísköldu mjólkurglasi. Myndi mæla með þessu með kvöldkaffi og fjölskylduspjalli fyrir svefninn, einstaklega ljúft. Svo verður það að viðurkennast að þetta er ein af fáum uppskriftum sem ég passa upp á gramm, því ég er allt of mikill dass-bakari og enginn bakstur því alveg eins.“

Konfektsmákökur Eddu

110 g hveiti

½ tsk. matarsódi

¼ tsk. salt

100 g smjör

90 g sykur

70 g púðursykur

40 g kornflex

80 g haframjöl

50 g kókosmjöl

1 egg

1 tsk. vanilludropar

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Hnoðið síðan saman öllu hráefninu í litlar kúlur og bakið við 180°C í 11-13 mínútur. Þegar kúlurnar koma út er suðusúkkulaði brætt og góður dropi settur á hverja köku. Svo er bara að njóta við kertaljós með ísköldu mjólkurglasi.