Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafs­son hefur fengið mikið lof gagn­rýn­enda enda ó­tví­rætt ein af hans bestu bókum. Aðal­per­sónan er hinn 75 ára gamli Kristófer sem lokar veitinga­stað sínum í Reykja­vík og heldur í ferða­lag. Sögu­sviðið er Ís­land, Bret­land og Japan.

Í við­tölum á liðnum árum hefur Ólafur Jóhann talað um að yfir­leitt leggi hann skáld­sögur sínar í salt í nokkurn tíma og komi svo að þeim aftur og fín­pússi. Hann er spurður hvort hann hafi haft þennan hátt á við vinnslu Snertingar. „Það var lítið salt,“ segir hann.

„Ég byrjaði að skrifa bókina í mars á þessu ári og ætlaði mér ekki að klára hana. Ég ætlaði aðal­lega að hafa ofan af fyrir mér í kófinu og var því ekki að keppast við. Ég skrifaði hvern einasta dag og svo kláraðist hún í ágúst. Þá lagði ég hana frá mér í þrjár vikur og kom svo aftur að henni og þurfti mjög lítið að gera. Það kom mér á ó­vart að hún skyldi nokkurn veginn verða eins og hún er strax í fyrstu til­raun.

Ég var búinn að hugsa um þætti úr henni mjög lengi og það hvernig ætti að koma þeim heim og saman. Ég var með bygginguna í hausnum og vildi nota ferða­lagið til að leiða söguna þó Kristófer sé með ýmis­legt í huganum á leiðinni og flakkar svo­lítið í tíma.

Eina skiptið sem ég þurfti að nema staðar meðan ég var að skrifa og henda ein­hverjum blað­síðum var þegar Kristófer er lentur í London. Þá lét ég hann fá kompaní í hálf­gerðum út­úr­dúr. Svo fannst mér það ekki virka, vissi að hann yrði að vera einn á þessari ferð. Þá henti ég því sem ég hafði skrifað og spólaði til baka.“

„Ein­hver sagði að allar sögur væru ástar­sögur,“ segir Ólafur Jóhann.
Fréttablaðið/Valli

Á­hrif kjarn­orku­sprengju

Spurður hvort hann hafi langað til að skrifa ástar­sögu segir Ólafur Jóhann: „Ein­hver sagði að allar sögur væru ástar­sögur – en ef svo er þá eru þær mis­miklar ástar­sögur. Mig langaði að skrifa svona sögu. Japans­sagan er kjarninn. Það eru þrjá­tíu ár síðan sam­starfs­maður minn, eftir kvöld­verð í Japan, sagði mér fjöl­skyldu­sögu sína eftir að við höfðum drukkið sake og japanskt viskí, hann meir en ég, annars hefði ég kannski ekki munað söguna.

Þetta var saga for­eldra hans sem voru frá Hiros­hima og þau á­hrif sem kjarn­orku­sprengjan hafði á þá sem lifðu af. Þetta var maður sem ég hafði unnið með í nokkur ár og átti eftir að vinna með í fjölda ára. Hann minntist aldrei aftur á þetta. Mig langaði líka til að skrifa bók um mann sem var að ljúka starfs­ævinni og hann þurfti helst að hafa verið að reka veitinga­stað.

Svo hef ég alltaf verið mjög hrifinn af þessum tíma, sjöunda ára­tugnum í Eng­landi. Bróðir minn Jón lærði í Liver­pool og þegar ég var strákur var hann að koma heim með Bítla­plöturnar.“

Orti hækur

Hluti bókarinnar gerist á CO­VID­tímum. „Þetta er ekki bók um CO­VID. Ég nota CO­VID-á­standið til að hrinda á­kveðinni sögu af stað og það er ó­vissan sem styður við ferða­lagið, bæði hið raun­veru­lega ferða­lag og ferða­lagið í hausnum á aðal­per­sónunni,“ segir Ólafur Jóhann.

Nokkrar hækur er í bókinni sem Ólafur Jóhann orti sjálfur. „Strax sem strákur fór ég að lesa japanskan kveð­skap og hafði og hef af­skap­lega gaman af hækum og tönkum. Þegar ég fór í há­skóla og lærði eðlis­fræði og stærð­fræði tók ég kúrsa í japanskri ljóð­list, japanskri list og bók­menntum mér til skemmtunar. Mér datt í hug að láta aðal­per­sónuna kveðast á við Japana, þeir tala hver við annan á þennan hátt.“

„Ég vissi ná­kvæm­lega hvaða tón ég vildi slá,“ segir Ólafur Jóhann.
Fréttablaðið/Valli

Stíllinn var frum­skil­yrði

Sagan er ein­stak­lega fal­lega skrifuð, stíllinn er bein­línis seiðandi. „Ég vissi ná­kvæm­lega hvaða tón ég vildi slá. Hann varð að harmónera við sögu þessa fólks og varð að vera angur­vær og lág­stemmdur. Stíllinn var eigin­leg frum­skil­yrði þess að ég myndi halda á­fram. Ég á­kvað að prófa að skrifa fyrsta kaflann og þar snerist allt um það hvort ég myndi ná þessum tóni sem ég vildi reyna að halda í gegnum söguna. Það tókst.

Sögu­maður varð að birtast strax á þann hátt sem ég vildi og síðan verður hann flóknari eftir því sem á líður og fer sjálfur að tala um það hvað hefði betur mátt fara í hans eigin lífi og fram­komu. Ég vildi að það sæist strax að þetta væri sam­visku­samur maður sem vildi gera vel og vildi öllum vel. Þannig mönnum er kannski enn verr við það þegar þeim finnst þeim ekki hafa tekist það að öllu leyti.“

Allir eru ó­vinurinn

Spurður hvort hann hafi á ein­hverjum tíma­punkti verið smeykur við að skrifa ástar­sögu um sanna ást segir Ólafur Jóhann: „Nei, mig langaði til þess. Þetta eru tímar þegar allir eru ó­vinurinn vegna þess að veiran býr í fólkinu og maður fær hana með því að nálgast fólk og má ekki faðma það.

Það er skrýtið að geta ekki komið við fólk, geta ekki snert það, geta ekki verið ná­lægt því og geta ekki blandað geði. Mig langaði til að skapa mót­vægi og segja: Þetta er tíma­bundið á­stand, þetta á ekki að vera svona. Ég er að skrifa um kær­leikann með öllum sínum flækjum og hliðar­sporum og öllu því sem getur gerst á þeirri veg­ferð.“