Sjónvarpsþættirnir Wednesday hafa nú þegar slegið met Netflix-veitunnar með flestum klukkutímum streymdum á einni viku. Þættirnir voru frumsýndir þann 23. nóvember og notendur streymisveitunnar höfðu horft á þættina í 341,2 milljónir klukkustunda samkvæmt gögnum streymisveitunnar á þriðjudag.

Þættirnir eru afleiða hinna geysivinsælu bíómynda og sjónvarpsþátta um Addams-fjölskylduna, grín-hryllingsþátta sem nutu einstakra vinsælda á tíunda áratugnum.Leikkonan Jenna Ortega fer með aðalhlutverk. Sagan hverfist um unglingsstúlkuna Wednesday Addams, sem hefur nám í framhaldsskóla fyrir einstaklinga á jaðrinum sem búa yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum.

Þáttunum leikstýrir Tim Burton, sem hefur sérhæft sig í dekkri stefum fjölskyldumynda með einstöku handbragði og húmor. Einvalalið leikara túlkar kunnuglegar persónur úr heimi Addams-fjölskyldunnar. Þá er Christina Ricci meðal leikenda, en hún túlkaði persónu Wednesday í bíómyndunum fyrir tveimur áratugum síðan. Verðlaunatónskáldið Danny Elfman semur tónlistina.