Leikkonan Michelle Yeoh skrifaði nafn sitt á spjöld sögunnar þegar hún vann Óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki, fyrst asískra kvenna. Verðlaunin vann hún fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Everything, Everywhere, All at Once sem er sú kvikmynd sem sópaði að sér flestum verðlaunum á hátíðinni. Myndin vann til sjö verðlauna en það eru flest verðlaun sem ein kvikmynd hefur hlotið á Óskarsverðlaunahátíðinni í 14 ár, eða síðan Slumdog Millionaire hlaut átta verðlaun árið 2009.

Michelle vissi að Óskarsverðlaunakvöldið yrði sérstakt fyrir hana þar sem hún var tilnefnd til einna af aðalverðlaunum hátíðarinnar. Hún lagði sig því alla fram um að líta vel út á rauða dreglinum á sunnudagskvöldið. Hún undirbjó húðina með því að nota nota La Mer's Treatment Lotion, The Eye Concentrate og The Moisturizing Soft Cream.

„Vörurnar þeirra hjálpa til við að gefa húðinni á mér raka og undirbúa mig fyrir förðun,“ sagði hún í viðtali við Vogue.

Draumi líkust

Hárgreiðslukonan Mara Roszak og förðunarfræðingurinn Sabrina Bedrani hjálpuðust að við að gera útlit hennar tímalaust og áreynslulaust. Michelle segir að þær hafi viljað skapa mjúkt náttúrulegt útlit og því var sérstök áhersla á að gera húðina fallega.

Sabrina sagði í samtali við Vogue að hún hafi viljað draga fram og bæta náttúrulega eiginleika Michelle með förðuninni.

„Mig langaði að draga fram augun í henni án þess að gera þau of dökk,“ sagði hún. Sabrina notaði gel-augnfarða frá Stila sem augnlínupenna og augnskuggapallettu frá Dior. Hún fullkomnaði síðan útlitið með tvenns konar varalit. Rouge Dior 625 Mitzah og Dior Addict 526 Mallow Rose.

Stílistinn Jordan Johnson Chung lagði sitt af mörkum til að láta ljós Michelle skína sem skærast á rauða dreglinum. Hún var í Dior-kjól hönnuðum af Maria Grazia Chiuri en kjóllinn var úr beinhvítu silki-organsa og alsettur hvítum fjöðrum sem gerðu kjólinn draumi líkastan.

„Mér finnst gaman að halda fólki forvitnu og koma því á óvart, svo einfaldur glæsileiki er leiðin sem við völdum með útlitinu,“ sagði Michelle í áðurnefndu viðtali. Hún sagðist elska bylgjurnar sem fjaðrirnar mynduðu í kjólinn og létu hann virka fljótandi.

Skartgripir frá Moussaieff

Skartgripirnir sem Michelle valdi að nota við kjólinn eru demantsskartgripir frá Moussaieff, skartgripafyrirtæki í eigu fjölskyldu Dorritar, fyrrverandi forsetafrúar. Skartgripirnir sem Michelle bar voru hálsmen, eyrnalokkar og hringur en hún breytti hálsmeninu í höfuðskart.

Það eru þó nokkuð mörg verkefni fram undan hjá þessar sextugu malasísku leikkonu en hún er núna í tökum á Wicked. Einnig lék hún í þáttunum American Born Chinese sem koma út á Disney+ á þessu ári en í þeim þáttum leika einnig meðleikarar hennar úr Everything Everywhere All at Once, þau Ke Huy Quan og Stephanie Hsu.