Veitingahúsið Koks í Færeyjum sem er með tvær Michelin-stjörnur verður flutt til Grænlands. Eigandinn hefur ákveðið að flytja veitingahúsið til þorpsins Ilimanaq sunnan við bæinn Ilulissat á vestanverðu Grænlandi, þar sem eru 80 íbúar. Þetta hefur komið mörgum á óvart enda staðurinn stolt Færeyja og hefur dregið til sín fjölda ferðamanna.

Í viðtali við dr.dk segir eigandinn, Johannes Jensen, þetta vera einstakt tækifæri. „Það er frábært að upplifa landsvæði með einstakri náttúru og hráefni.“ Flutningurinn kemur Mikkel Bækgaard, höfundi ferða- og matarskrifa, mikið á óvart. „Koks er ímynd Færeyja,“ segir hann. „Veitingastaðurinn hefur hjálpað til við að eyða fordómum um færeyska matarmenningu og gert vindblásnar eyjar að áfangastað alþjóðlegra matarferðamanna,“ segir hann.

Í sögulegu húsi

Koks var opnað fyrir tíu árum og býður einungis mat úr nærliggjandi umhverfi, sem hefur slegið í gegn hjá matgæðingum. Fyrst um sinn verður Koks starfandi á Grænlandi í tvö ár, en á þeim tíma verður veitingastaðurinn í Færeyjum stækkaður. Koks verður í sögulegri byggingu á Grænlandi frá 18. öld. Boðið verður upp á flug og gistingu í lúxusskálum og snæddur sælkeramatur með útsýni yfir ísjaka í Ísfirði sem er á heimsminjaskrá UNESCO.