Ester Ottesen hefur verið viðurkenndur bókari síðan árið 2015 en unnið í faginu frá 1998. Hún er 46 ára gömul og starfar sem sérfræðingur á fjármálasviði hjá VSÓ Ráðgjöf, alhliða ráðgjafar- og verkfræðifyrirtæki. „Þar stýri ég aðalbókhaldi og launabókhaldi ásamt ýmsum sérverkefnum tengdum mannauðsmálum,“ segir Ester.

„Það eru forréttindi að hafa fengið að þróast og vaxa með fyrirtækinu sem taldi 39 starfsmenn þegar ég byrjaði. Nú erum við rúmlega 90 manns og hefur fjármálasviðið tekið breytingum í takt við það. VSÓ er einstakt fyrirtæki og við erum eins og ein stór fjölskylda,“ segir Ester sem er gift Eyjamanni og saman eiga þau tvö uppkomin börn. „Sjálf er ég gallharður KR-ingur en syng annað slagið ÍBV-lagið fyrir karlinn svo hjónabandið sé alltaf í toppmálum,“ segir Ester og hlær.

Bókaragenið blossar upp

Bókarastarfið var að sögn Esterar langt frá því að vera draumastaðan í upphafi. „Ég var með mjög ákveðnar skoðanir og ég ætlaði sko aldrei að vinna á skrifstofu eins og mamma. Draumurinn var að verða hárgreiðslukona. Ég kláraði verslunarprófið í Verslunarskólanum og fór svo í Iðnskólann í hárgreiðslu.

Ég var alltaf ákveðin í því að opna mína eigin stofu en eftir þrjár annir í hárgreiðslu og eins árs samning áttaði ég mig á því að þetta væri ekki það sem ég vildi vinna við. Eftir mikla hvatningu frá foreldrum mínum sótti ég um sem móttökuritari hjá VSÓ árið 1995, en það átti að vera tímabundið á meðan ég kláraði stúdentinn.“

Svo kom að því að bókaragenið úr móðurættinni blossaði upp, eins og Ester orðar það. „Auk KR-gensins þá bý ég að innbyggðum bókhaldsskilningi. Mamma mín Guðlaug Þorgeirsdóttir er skrifstofustjóri hjá BYGG og báðir bræður hennar eru viðskiptafræðingar. Óhætt er að segja að bókaragenið kemur frá pabba þeirra, Þorgeiri Sigurðssyni löggiltum endurskoðanda, en hann lést árið 1971, aðeins 37 ára gamall,“ segir Ester.

Hræðist ekki tækninýjungar

Eftir 27 ár á sama vinnustað býr Ester að gríðarlega fjölbreyttri starfsreynslu. „Ég hef upplifað allt frá uppsveiflu að hruni. Ég hef lifað útrás VSÓ til Noregs, unnið með norskt bókhald og fyrirtækið hefur stækkað hratt síðustu ár. Síðan hafa miklar tækniframfarir gert vinnuna síbreytilega. Þetta er ómetanleg reynsla sem ekki verður kennd með bókum.

Ég er ansi framsækin og reyni alltaf að vera með puttann á púlsinum og skrefinu á undan. Ég sæki reglulega námskeið sem nýtast í starfi til að gera vinnuna eins sjálfvirka og um leið eins skemmtilega og hægt er. Það hljómar kannski undarlega en með því að nota tæknina til að einfalda bókhaldsferlið sparast mikill tími sem má nýta í önnur krefjandi verkefni. Maður er því alltaf að græða. Sjálfvirknin kemur í veg fyrir ýmsar villur og bókhaldið sýnir raunstöðu allt að því daglega.

Í Covid þurfti að bregðast hratt við vegna fjarvinnu og láta allt ganga áreynslulaust fyrir sig. Ég vinn með frábæru teymi og saman fundum við lausnir sem manni hefði ekki dottið í hug að fara út í fyrir þann tíma. Þar af leiðandi er bókhaldið nú orðið 95 prósent pappírslaust og ég hef varla prentað á pappír í tæp þrjú ár. Það felst líka mikill ávinningur í pappírslausu bókhaldi en um leið minnkum við kolefnisspor. Í þau fáu skipti sem ég þarf þess þá fyllist ég prentskömm,“ segir Ester.

„Nýlegt framfaraskref er innleiðing á rafrænum ráðningarsamningum. Í stað skriflegrar undirritunar er samningurinn nú sendur til rafrænnar undirritunar. Heilmikill tími sparast og um leið verður úrvinnsla og geymsla gagna einfaldari, enda höfum við fært alla undirritun, hvort sem það er verk- eða samgöngusamningur, í rafræna undirritun. Það magnaða er að þetta gerir vinnuna svo skemmtilega.“

Möguleikar gervigreindar

En hvað finnst þér um gervigreind? Er þetta þróun sem þú hræðist í þínu starfi?

„Gervigreind er ekki enn mikið rædd í stéttinni, en ég sé fyrir mér að það mætti vel nýta hana í ákveðnum verkefnum. Mikill tími myndi sparast við einfaldar aðgerðir eins og ef ekki þyrfti að lykla alla rafræna reikninga, heldur gæti gervigreindin lesið og lyklað það sem er á reikningum. Sjálfvirknin leyfir okkur nú þegar að búa til bókunarstýringar en þær eru samt enn þá háðar ákveðnum takmörkunum. Ég sé ekki fyrir mér að gervigreindin muni taka alveg við af okkur mannfólkinu í þessum geira í bráð, því ég held að það muni áfram þurfa mannshugann til að greina það sem tæknin færir okkur.

Það er ótrúlega spennandi að fylgjast með tækniframförum í greininni og ef einhver heldur því enn þá fram að bókhald og endurskoðun sé leiðinleg vinna, er kominn tími til að henda þeirri hugsun út. Þar að auki hafa mörg ekki áttað sig á því að það þarf góða bókhaldsþekkingu til að vinna að lausn loftslagsmála. Hver veit, kannski ég verði komin á umhverfissvið VSÓ áður en langt um líður. Að því sögðu er það auðvitað á manns eigin ábyrgð að gera starfið sitt eins skemmtilegt og mögulegt er. Bókhald er nefnilega ekki bara debet og kredit,“ segir Ester kankvíslega.