Síðustu vikur hafa mæður fermingarbarnanna Ylfu Marínar og Ásdísar Katrínar, systurnar Anna og Jóhanna Þorleifsdætur, staðið í ströngu ásamt ektamökum sínum við að undirbúa, baka, plana, versla og ýmislegt fleira, enda er gestalistinn kominn upp í 130 manns.
Hugmyndin kom í fyrra
Það er ekki úr vegi að spyrja hvenær undirbúningur undir veisluna hófst. „Við byrjuðum að tala um þetta strax í fyrra, hvort það væri ekki sniðugt að halda veisluna bara saman, enda eru frænkurnar góðar vinkonur og auðveldara fyrir alla að bjóða stórfjölskyldunni í kaffi í einni veislu,“ segir Jóhanna.
Hvað er það sem þarf, að ykkar mati, til þess að gera fermingardaginn eftirminnilegan?
„Okkur þykir mikilvægast að dagurinn sé eins mikið eftir höfði fermingarbarnanna og hægt er, hvað varðar veitingar og annað sem við kemur veislunni,“ segir Anna sem er að ferma sitt annað barn. „Það helsta sem ég lærði af fyrstu veislunni er að stressa sig ekki um of yfir smáatriðum. Þetta kemur allt með kalda vatninu og smám sama tínast til þeir hlutir sem þarf til að gera daginn sem bestan,“ bætir hún við. „Feðurnir fá auðvitað líka að hafa skoðun á veislunni og taka þátt í eldamennsku og bakstri eftir bestu getu,“ bætir Jóhanna við.
„Til að halda skipulaginu sem bestu erum við með excel-skjal þar sem við höldum utan um verkefnalista og matseðil. Svo er að sjálfsögðu búið að bjóða gestunum,“ segir Anna og bætir við: „Í upphafi var 130 manns boðið en auðvitað er viðbúið að það komist ekki allir. Nú þegar hafa nokkrir afboðað sig.“
„Nú þegar líður að fermingardeginum sjálfum eru frænkurnar búnar að versla sér föt fyrir ferminguna. Það er búið að fjárfesta í ýmsum skreytingum og bóka sal. Leiga á sal yfir daginn er líklegast kostnaðarsamasti liðurinn en það munar svo miklu að vita af nægu plássi fyrir alla sem koma að deginum. Svo eru þetta auðvitað aukin þægindi að vita til þess að nóg sé af borðum, stólum og borðbúnaði,“ segir Jóhanna.

Ylfa Marín hefur verið með niðurtalningu í símanum sínum nánast frá því að miðarnir voru keyptir.
Fermingarferð til Parísar
Fermingargjöfin er svo mæðgnaferð til Parísar og að sögn systranna er mikil eftirvænting í loftinu. „Það er óhætt að segja að fermingarferðin sé mikið tilhlökkunarefni. Ylfa Marín hefur til að mynda verið með niðurtalningu í símanum sínum nánast frá því að miðarnir voru keyptir,“ segir Jóhanna. „Við mæðurnar erum líka mjög svo spenntar að komast út í afslöppun eftir ferminguna sjálfa og stefnir þetta í sannkallaða ævintýraferð. Stelpurnar hafa nú þegar keypt sér miða í Louvre-safnið og ætla líka að skoða Þjóðaróperuna í París (fr. Opera national de Paris) auk þess að versla og borða allan þann góða mat sem París hefur upp á að bjóða,“ bætir Anna við.
Fjölskyldan fengin í verkin
Stúlkurnar voru báðar ljósmyndaðar um daginn af Hrefnu Marínu, föðursystur Ylfu. Ljósmyndastúdíói var slegið upp í stofunni heima hjá þeim Ylfu, Jóhönnu, Nökkva og systkinum Ylfu. „Það vill svo til að systir Nökkva, mannsins míns, er flinkur áhugaljósmyndari og vel græjum búin. Hún hefur því ljósmyndað fjölskylduna í gegnum árin,“ segir Jóhanna. „Nú síðast um jólin var líka sett upp ljósmyndastúdíó í stofunni hjá Jóhönnu og það var í raun þá sem hugmyndin fæddist. Svo vorum við bara ótrúlega heppnar að Hrefna var laus og til í slaginn, sem er æði,“ bætir Anna við, sem farðaði fermingarstúlkurnar einnig fyrir myndatökuna. Hún er lærður förðunarfræðingur og tekur við förðunarverkefnum í gegnum Instagram: @annath_makeup

Grunnurinn að góðri fermingarförðun er að mínu mati falleg húð og að náttúruleg fegurð fái að njóta sín sem best án þess að nota of margar vörur.
„Grunnurinn að góðri fermingarförðun er að mínu mati falleg húð og að náttúruleg fegurð fái að njóta sín sem best án þess að nota of margar vörur. Ég notaði léttan farða, hyljara, kinnalit, góðan maskara og fallegan gloss á varirnar. Andlitið var skyggt létt með sólarpúðri. Góður farðafestir (e. setting spray) heldur svo öllu á sínum stað, enda er æskilegt að ná í gegnum daginn með förðunina enn í lagi,“ segir Anna. Hún segir að fermingarstú
lkurnar hafi fengið að leggja orð í belg þegar kom að förðuninni: „Þær vildu helst bara fá látlausa förðun og fá að njóta þess að vera extra fínar fyrir daginn. Þær ákváðu líka alveg sjálfar hvernig hárgreiðslu þær vildu, enda er það ekki síður partur af heildarútlitinu.“

Eins og sést hefur náðst að halda kostnaði niðri að nokkru leyti með því að nýta krafta fjölskyldunnar þegar kemur að fermingarundirbúningnum og því er ekki úr vegi að spyrja um lokakostnaðinn. „Við höfum verið mjög dugleg að gera sem mest sjálf svo við erum helst að horfa á leigu á sal og efniskostnað við eldamennskuna. Lokatölur eru ekki alveg orðnar greinilegar núna en við gætum séð fyrir okkur að þetta endi í kringum 200 þúsund fyrir veisluna,“ segir Anna. „Ferðalagið til Parísar og gisting þar á fallegu hóteli var bókað með miklum fyrirvara og er því óhætt að segja að þar höfum við sloppið vel. Endaði kostnaðurinn þar í 360 þúsund sem við skiptum á milli okkar fjögurra, en við mæðurnar fáum að fylgja fermingarbörnunum í þessa langþráðu ferð,“ segir Jóhanna.
Breyttar áherslur
Jóhanna og Anna eru báðar fermdar og segja að munurinn á fermingunum hér í denn og núna sé þó nokkur. „Fermingarveislurnar hafa breyst mjög mikið. Til dæmis höfum við ráðfært okkur við stelpurnar í gegnum allt ferlið, en það var ekki mikið um það þegar við fermdumst. Þær hafa kannski ekki sjálfar einhverjar fyrir fram ákveðnar skoðanir á skreytingum og slíku en við höfum boðið þeim mismunandi valkosti,“ segir Anna. „Ég held að andrúmsloftið sé jafnvel léttara en hér áður fyrr enda eru veislurnar betur sniðnar að hverju og einu fermingarbarni,“ bætir Jóhanna við.
Þetta viðtal birtist fyrst í Fermingarblaði Fréttablaðsins sem gefið var út föstudaginn 17. mars 2023