Ljóðskáldið Valdimar Tómasson sendi frá sér ljóðabókina Vetrarland um miðjan síðasta mánuð. Bókin er komin á topp sölulista Eymundsson yfir ljóðabækur sem kemur þeim sem til þekkja á bókamarkaði ekki á óvart þar sem Valdimar er jafnan vel yfir öllu meðaltali þegar kemur að sölu ljóðabóka.

„Hann er oft kallaður Metsölu-Valdi á skrifstofunni, enda afar sjaldgæft að ljóðabækur seljist jafn mikið og bækur Valdimars,“ sagði útgefandi Valdimars, Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, í samtali við Fréttablaðið í maí þegar Vetrarlandið kom út.

Sjálfur er Valdimar hógværðin uppmáluð þegar hann er inntur eftir því hvernig skáldinu líði á toppnum og hvort hann fái mikið hrós frá dyggum lesendum. „Þeir eru í það minnsta ánægðir með kápuna,“ segir skáldið og glottir.

Sjá einnig: „Metsölu-Valdi“ snýr aftur með nýja ljóða­bók

„Vorið er líka gott fyrir ljóðið að því leyti að þá fær það kannski meira pláss á borðum bókabúðanna og drukknar ekki í öllum jólabókunum.“

Skáldið, hokið af reynslu, gjörþekkir markaðinn og allar fastar sveiflur á honum. „Nú er fólk að koma út úr gjafatímabili útskriftanna og er að kaupa bækur handa sjálfu sér.“

Listinn byggir á sölu í bókaverslunum Pennans/Eymundsson og tekur til dæmis ekki til þeirra eintaka sem Valdimar selur sjálfur en hann er iðinn við kolann og selur talsvert af bókum sínum á förnum vegi.

„Rennslið í Eymundsson hefur samt alltaf verið gott,“ segir Valdimar og telur sölulistann því gefa nokkuð góða mynd af því hvaða ljóðabækur seljist mest og best.

Mest fer fyrir ljóðasöfnum á sölulistanum og þannig hefur Valdimar komið sér þægilega fyrir fyrir ofan Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna, sem Silja Aðalsteins tók saman, Íslensk úrvalsljóð, sem Guðmundur Andri Thorsson valdi og ljóðasafn Steins Steinarrs.