Valdimar Tómasson er íslenskum bókmennta- og þá ekki síst ljóðaunnendum að góðu kunnur, bókasafnari, ljóðskáld og manna fróðastur um bækur og kveðskap að fornu og nýju.

Í vikunni kom út ný ljóðabók eftir Valdimar, Vetrarland, en í henni segist hann yrkja í svipuðu formi og í Dvalið við dauða lindir  sem kom út snemma árs 2017.

„Þetta er í frjálsu falli,“ segir Valdimar kíminn í samtali við Fréttablaðið. „Formið er frjálst en þetta er mikið stuðlað eins og gengur. Ég yrki þarna í mjög svipuðu formi og í Dvalið við dauðalindir en það er þó svolítið bjartara yfir.“

Valdimar er annálaður bókasafnari og á sjálfsagt eitt stærsta safn fágætra bóka í einkaeigu á Íslandi. Það er því ekki komið að tómum kofunum hjá honum þegar bækur eru annars vegar; bæði innihald og umgjörð.

Loksins innábrotinn

„Ég er bálskotinn í útlitinu á þessu. Alveg hæstánægður með hönnunina og það er meira að segja innábrot. Ég er nú fagurkeri á bækur, alger rjómakall í þessu. Ég sagði nú við Egill Örn hjá Forlaginu fyrir margt löngu að einhvern tíma yrði maður svo gott skáld að maður fengi innábrot.“

Valdimar vakti mikla og verðskuldaða athygli með bókinni Sonnettugeigur árið 2013 en í henni orti hann um ástina og dauðann undir þessum krefjandi suðræna bragarhætti og sýndi fádæma leikni með þetta flókna form.

Viðtökurnar með ólíkindum

Og nú er nú er komið að því og útgefandinn, Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins er hæstánægður.

„Hann er oft kallaður Metsölu-Valdi á skrifstofunni, enda afar sjaldgæft að ljóðabækur seljist jafn mikið og bækur Valdimars,“ segir Egill Örn.

„Viðtökurnar hafa verið með ólíkindum og það verður líka að geta þess að hann sinnir sjálfur söluhliðinni ákaflega vel.“

Valdimar er mikið á ferðinni um borgina og í kjölfar nýrrar útgáfu jafnan með lítinn bókalager í farteskinu og selur ekki síður á götum úti en í bókaverslunum.

„Þannig höfum við reglulega endurprentað bækur Valdimars og skoðum nú útgáfu heildarsafns ljóða metsöluskáldsins,“ segir Egill Örn.