Félagarnir Eyjólfur Gestur Ingólfsson matreiðslumeistari og Hilmar Hafsteinsson framreiðslumeistari eiga og reka Steikhúsið ásamt G. Hafsteini Egilssyni og Níels Hafsteinssyni.

„Sérstaða okkar felst í því að við erum steikhús og leggjum upp úr því að bjóða upp á besta mögulega kjöt sem er í boði á Íslandi í dag. Einnig erum við með „dry age“ kæliskáp, sem er sá fyrsti sinnar tegundar á landinu, til að kúnnarnir geti fengið gæðavörur enn þá betri. Upplifunin sem við viljum leggja upp með er létt en fagmannleg þjónusta svo að viðmótið henti sem flestum og öllum líði sem best inni á staðnum. Við leggjum mikið upp úr því að menntaðir fagmenn vinni bæði í sal og eldhúsi til að upplifunin verði sem best fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Hilmar í glæsilegum salarkynnum Steikhússins í gamla Hamarshúsinu við Tryggvagötu 4–6.

„Við fengum Leif Welding til að hanna staðinn og móta hugmyndirnar sem við lögðum upp með. Þar sem áður var stálsmiðja í húsinu vildum vera með rústik-þema og tengja það tannhjólum og kopar. Okkur fannst það eiga vel við þar sem við þurfum mikinn hita í kolaofninn til að grilla steikurnar eins og við viljum hafa þær. Við vildum líka tengja okkur við vöðvana úr skepnunni og gráðurnar sem við eldum kjötið upp í kjarnhita, og þess vegna erum við með mynd af nautgrip á veggnum sem sýnir vöðvaskiptingu á nautinu og spjald sem sýnir kjarnhita miðað við steikingar,“ útskýrir Hilmar.

Steikhúsið er í Tryggvagötu í sjarma gamla miðbæjarins. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Gestir velja steikurnar sjálfir

Sérstaða matseðils Steikhússins felst að mestu leyti í kjötinu á matseðlinum.

„Við bjóðum gestum okkar að velja sínar steikur og svo geta þeir búið til sinn eigin rétt þar sem þeir velja sér meðlæti og sósur eftir eigin höfði. Við leggjum mikið upp úr fjölbreytileika og erum einnig með forrétti, fiskrétti, eftirrétti og grænmetisrétt svo allir geta fengið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Eyjólfur matreiðslumeistari.

Hugmyndafræðin á bak við matseðilinn hafi alltaf verið sú sama í grunninn, en eins og í öllu breytist mikið í faginu og upp komi tískustraumar.

„Við fylgjum því og þróum matseðilinn frá ári til árs, bætum við nýjum réttum þrisvar á ári og notum alla þá tækni sem fellur inn hverju sinni til að móta og búa til eitthvað nýtt og krassandi,“ segir Eyjólfur.

Aðspurðir segja Hilmar og Eyjólfur grillaða nautalund sígilda og það vinsælasta á matseðlinum í gegnum tíðina.

„En hjá ferðafólkinu sem kemur til okkar er surf’n turf-rétturinn, með grilluðum hval og hrossasteik, sá allra vinsælasti og hefur fallið vel í kramið.“

Hönnun Steihússins er í rústik-stíl með kopar í forgrunni. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Leyndardómurinn fagmennska

Þegar spurt er um galdurinn við velgengni staðarins eru svörin skýr.

„Við höfum ávallt lagt mikið upp úr þeirri hugmyndafræði að til að reka veitingastað þurfi eigendur að taka til hendinni og vera til staðar, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Þá skiptir mannauðurinn höfuðmáli þegar kemur að rekstri eins og okkar, og við höfum sagt að „það er enginn sterkari en veikasta tannhjólið“ eins og stendur á veggnum hjá okkur,“ segir Hilmar.

Eyjólfur tekur undir orð Hilmars og bætir við:

„Það þarf líka mikla ástríðu fyrir faginu þar sem mikil viðvera fylgir því að reka veitingastað. Góð samskipti á milli deilda eru jafnframt dýrmæt fyrir lítinn og rótgróinn veitingastað eins og Steikhúsið. Leyndardómurinn felst í fagmennskunni og þekkingunni fyrir hráefninu sem við höfum í höndunum. Við notum hágæða vörur og bestu tæki sem völ er á í dag. Metnaður starfsfólksins er svo það sem gerir gæfumuninn í eldhúsinu.“

Á Steikhúsinu geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er kjöt, fiskur, forréttir, eftirréttir eða grænmetisréttur. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Steikhúsið alltaf efst í huga

Hilmar hefur frá unglingsaldri verið viðlogandi veitingarekstur í gegnum fjölskyldu sína og segir áhugann fyrir bransanum hafa kviknað snemma.

„Með árunum hefur það svo ágerst og sérstaklega eftir að ég fékk tækifæri til að taka þátt í rekstrinum með Eyjólfi, pabba mínum og bróður. Ég útskrifaðist úr viðskiptafræði 2016 og hafði þá hugsað mér að starfa eitthvað í kringum það en svo lá leiðin þennan veg og fór ég í kjölfarið í framreiðslunám í MK þaðan sem ég útskrifast 2018 og náði mér í meistarabréf í beinu framhaldi. Árið 2019 keppti ég síðan fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti þjóna sem haldið var í Hörpu, keppti þar við sterkustu þjóna Norðurlandanna og hafði mjög gaman af. Ég hef einnig dæmt í þjónakeppnum hérlendis þar sem valinn er framreiðslunemi til að taka þátt fyrir Íslands hönd á Evrópumóti,“ upplýsir Hilmar sem var nýlega kjörinn í stjórn framreiðslumeistara sem hefur það aðalmarkmið að halda utan um stéttina og koma henni betur á framfæri.

„Steikhúsið er mér samt sem áður alltaf efst í huga og það er mikil og skemmtileg áskorun að taka þátt í þeim rekstri,“ segir Hilmar.

Í Steikhúsinu er lagður mikill metnaður í eldun og framsetningu rétta sem eru bornir fram á fallegan og girnilegan hátt. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Konsept sem vantaði

Eyjólfur byrjaði sem matreiðslunemi á Hótel Sögu. Þar kynnist hann Níels, sem alla jafnan er kallaður Nilli, og Hafsteini sem ráku þar veitingadeildina, og þá hófst samstarfið.

„Á nemaárunum tók ég þátt sem aðstoðarmaður landsliðsins, fór þá til Lúxemburg og einnig til að taka þátt í keppninni. Eftir útskrift hélt ég áfram að vinna á Grillinu sem matreiðslumaður og var þar í eitt ár. Síðan vildi ég gera breytingar, sjá meira af því sem var í boði í matreiðslunni og réð mig á Vox Restaurant og síðar meir á Silfur sem þá var nýr veitingastaður á Hótel Borg,“ greinir Eyjólfur frá.

„Nilli hefur síðan samband og fékk mig til að vinna í Iðusölum sem voru salir sem mikill metnaður var lagður í og hann vildi byggja upp, enda á besta stað í Reykjavík. Á þeim tíma tók ég þátt í Matreiðslumanni Íslands og endaði í 2. sæti. Síðan lá leiðin til Noregs þar sem ég vann á veitingastaðnum Gamla Værket í Sandnes í tvö ár. Við fjölskyldan fluttum svo aftur heim og þá lá beint við að heyra í Nilla. Við byrjuðum að þróa hugmynd að veitingastað og útkoman varð Steikhúsið árið 2012. Þremur árum seinna ákváðum við að sameinast Rauða Ljóninu á Eiðistorgi sem Hafsteinn rak og upp frá því byrjaði samstarfið í núverandi mynd og við mynduðum fjóreykið sem sér um staðina í dag,“ upplýsir Eyjólfur.

Hugmyndin að Steikhúsinu hafði legið hjá þeim í mörg ár.

„Við sáum að þetta konsept vantaði á markaðinn hér. Það var ekki til neinn kolaofn svo að við þurftum að bjóða upp á eitthvað nýtt sem enginn hafði fengið áður. Í grunninn hefur Steikhúsið verið það sama en eins og öll góð fyrirtæki þróast með tíðarandanum, og ný tæki og tól hafa bæst við í eldhúsinu til að gera upplifunina betri. Jafnframt hefur starfsmönnum fjölgað til að gera þjónustuna fagmannlegri,“ segir Eyjólfur.

Skoðið matseðilinn á Steikhúsinu hér.