Breska ríkis­út­varpinu barst um 110 þúsund kvartanir frá breskum al­menningi vegna um­fjöllunar um Filippus her­toga af Edin­borg og dauð­daga hans. Fannst á­horf­endum nóg um um­fjöllunina, að því er segir í frétt BBC. Neðst í fréttinni má horfa á hvernig BBC rauf útsendingu á föstudag.

Eins og háttur er á þegar með­limur bresku konungs­fjöl­skyldunnar geispar golunni rauf BBC út­sendingu á öllum stöðvum sínum þegar til­kynna þurfti bresku þjóðinni um and­lát Filippusar. Fréttir tóku við af vin­sælum þáttum líkt og MasterChef og þá var skemmti­stöð BBC, BBC Four al­farið lögð niður síðast­liðinn föstu­dag.

Í frétt breska ríkis­út­varpsins kemur fram að aldrei hafi eins margir kvartað yfir dag­skrár­gerð ríkis­út­varpsins þar í landi. Aðrir dag­skrár­liðir úr for­tíðinni sem einnig hlutu þúsundir um­kvartana voru þátturinn Jerry Springer: The Opera sem upp­skar 63 þúsund kvartanir árið 2005 og síma­at Rus­sell Brand í leikaranum Andrew Sachs en 42 þúsund manns kvörtuðu til BBC vegna þess árið 2008.

Tekið er fram í frétt BBC að stöðin hafi ekki verið sú eina sem hafi rofið dag­skrá þegar fréttir af and­láti her­togans bárust. Það hafi sjón­varps­stöðvarnar ITV, sem þekkt er meðal annars fyrir raun­veru­leika­þættina Love Is­land og Channel 4 einnig gert. Þar tóku við frétta­tímar í stað vin­sæls skemmti­efnis.

Skamman tíma tók þó fyrir fækkun í hópi á­horf­enda en á­horfs­tölur ITV fóru niður um 60 prósent á föstu­daginn frá því vikuna áður. Þá missti BBC Two tvo þriðju af sínum á­horf­enda­hópi.

Tóku stjórn­endur BBC á­kvörðun um að setja inn sér­stakt eyðu­blað á vef­síðu sína á laugar­daginn, til þess að gefa á­horf­endum kost á að kvarta vegna dag­skrárinnar með ein­faldari hætti. Það eyðu­blað var síðar tekið niður eftir að kvartanir fóru að fækka.