Pinkpop er haldin árlega í Schaesberg í Landgraaf í Hollandi og er elsta og þá jafnframt langlífasta rokktónlistarhátíð heims. Pinkpop er kennd við hvítasunnuhelgina, Pinksteren á hollensku, enda yfirleitt haldin þá.

Þegar helgina ber hins vegar upp snemma í maí, eins og í ár, fer hátíðin fram síðar í júní og var því haldin í vikunni sem leið. Pinkpop þótti heppnast sérlega vel að þessu sinni, enda söguleg þar sem hún markar endurkomu hátíðarinnar eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldursins

Öllu var því tjaldað til og Pearl Jam og gömlu rokkhundarnir í Metallica frá Kaliforníu trommuðu upp í fremstu víglínu. Þá áttu Íslendingar sína fulltrúa í Kaleo frá Mosfellsbæ.

Metallicu hlotnaðist sá heiður að ljúka hátíðinni og hermt er að bandið hafi rokkað Pinkpop svo feitt 2022 að ártalið hefði allt eins getað verið 2014. Undirtektir áheyrenda, með tilheyrandi hausaköstum, sýndu síðan svo ekki var um villst að hvorki þau né hljómsveitin höfðu nokkru gleymt.

Hátíðin var fyrst haldin 1970 í borginni Geleen og teygir sig í dag yfir þrjá daga og á hverjum degi safnast um 60.000 gestir saman við fjögur tónleikasvið. Áætlað er að 2 milljónir manna hafi sótt Pinkpop frá upphafi og upplifað um 700 tónlistaratriði.

James Hetfield úr Metallica sýndi gamla takta á sviðinu í Landgraaf.
Fréttablaðið/Getty
Ítalski hjartaknúsarinn Damiano David sem sigraði Eurovision 2021 með félögum sínum í Måne­skin sannar að hann á heima á sviðinu og hvergi annars staðar.
Fréttablaðið/Getty
Fleur Jansen úr Nightwish hefur engu gleymt.
Fréttablaðið/Getty