Það hefur vakið athygli bæði í þáttunum Heima með Helga sem sýndir voru við miklar vinsældir hjá Símanum og í Sóttbarnalögum Hljómskálans á RÚV hvað menn voru hattprúðir. Þar mátti sjá jafnt pípuhatt, klassískan hefðbundinn hatt, kúrekahatt og sixpensara.

Sigtryggur Baldursson hefur sett upp hatt reglulega, eða allt frá því hann kom fyrst fram sem Bogomil Font árið 1992. Hann á gott hattasafn, að minnsta kosti tuttugu, segir hann. Sigtryggur segir að hinir hafi verið lengur að átta sig á því hvað það væri töff að bera hatt. „Bogomil var vitaskuld karakter sem varð að hafa hatt,“ segir hann en Sigtryggur segist hrifinn af alls konar höttum en það fari þó eftir tilefninu hver sé uppáhalds, mismunandi hattur við mismunandi tækifæri. Í Hljómskálanum hefur Sigtryggur einmitt borið mismunandi hatta.

Stefán Hilmarsson mætti líka með hatt til Helga og lifði sig inn í sönginn.

Stefán Eiríksson, gítarleikari í Reiðmönnum vindanna, sýndi það í þáttunum Heima hjá Helga að hann er hattakarl. Félagar hans í hljómsveitinni settu upp hatta líka þegar tækifæri gafst til. Þá mættu bæði Bó og Egill Ólafs með hatta. Þeir eru því gengnir inn í þennan virðulega klúbb hattamanna.

Kormákur Geirharðsson rekur herraverslunina Hjá Kormáki og Skildi en þar er eitt mesta hattaúrval landsins. Kormákur segist hafa orðið var við mikinn kipp í sölu á sixpensurum á meðan kóvítið var sem mest. „Ætli við viljum ekki allir vera afar okkar,“ svarar Kormákur þegar hann er spurður um þetta hattaæði. „Það eina sem hreyfðist í búðinni í samgöngubanninu voru Barbour-jakkar og sixpensarar,“ segir hann. „Fínni hattar eru mjög mismunandi að gæðum, sumum er hægt að rúlla upp og setja í ferðatösku án þess að þeir krumpist á meðan aðra þarf að geyma í boxum. Sumir vilja bara Borsalino-hatta og kaupa alltaf sama merkið. Þeir vita hvað þeir vilja en aðrir eru óöruggir. Við lendum oft í löngu spjalli við menn sem eru að velja hatt,“ segir hann.

Egill lét ekki hattinn vanta þegar hann mætti í stofuna til Helga.

Kormákur segir að hattatískan sé ekki bara á Íslandi. „Þessi tíska er um allan heim og hefur verið mikið í bíómyndum. Kúl fólk er með hatta. Mestu töffararnir eru hattagæjar. Margar konur koma til okkar og kaupa sixpensara á eiginmanninn. Sumir eru feimnir fyrst að bera höfuðfat en venjulega tekur það þrjá daga að venjast því. Maður þarf alltaf að sættast við sjálfan sig í spegli. Þegar menn hafa sæst á hattinn fá þeir aukið sjálfstraust og eru bara mjög flottir. Svo er alltaf einn og einn sem spyr um kúrekahatt,“ segir Kormákur og bætir við að sixpensarinn sé þó alltaf vinsælastur enda hlýr og þægilegur.

Ingi Björn Ingason, bassaleikari Reiðmanna vindanna, með virðulegan svartan hatt. MYNDIR/EINAR Bárðarson
Hrafn Thoroddsen píanóleikari með hvítan töffaralegan hatt.
Sigtryggur Baldursson er alltaf með flotta hatta enda á hann gott safn. Hér í þættinum Sóttbarnalög Hljómskálans á RÚV. MYNDIR/Rúv
Óttarr Proppe með barðastóran, rauðan hatt, þó ekki kúrekahatt.
Sigurður Guðmundsson söngvari setur gjarnan upp sparihattinn.
KK heldur sig við sixpensarann og hefur jafnvel haft mikil áhrif þar sem þeir seljast grimmt þessa dagana.
Stefán Eiríksson, gítarleikari Reiðmanna vindanna, er alltaf með hatt.