Mest sótta smáforritið á Íslandi í Apple-store í dag heitir Jokesphone og er notað í tilgangi til að hrekkja og ónáða fólk.

Lögreglan hefur varað fólk við símtölum úr þessu forriti og telur þetta klárlega einhvers konar tilraun til svika.

Forritið er gjaldfrjálst og er nokkuð einfalt. Notendur geta valið hrekk en á listanum má finna upptökur sem hægt er að senda á símanúmer:

  • Þú klesstir á bílinn minn
  • Rafmagnsleysi
  • Læti frá íbúðinni
  • Af hverju ertu að hringja í kærustuna mína?
  • Hasslykt í húsinu
  • Hundurinn þinn er svo pirrandi
  • Pizzusendillinn
  • Hraðasektin
Fréttablaðið/Samsett mynd

Þegar stimplað er inn símanúmer hringir forritið í það númer og spilar upptökuna þegar svarað er í símann. Sá sem fær símtalið sér aðeins „private number“ á skjánum.

Forritið tekur svo upp viðbrögð aðilans hinum megin á línunni og vistar það fyrir notandann. Þannig gætu svikahrappar nálgast upplýsingar án þess að hægt sé að rekja símtalið til þeirra.

Í fyrstu upptökunni, Þú klesstir á bílinn minn, heyrist kvenmannsrödd sem segist vera að hringja í númer á miða sem hún fann á bílnum sínum eftir að ekið var á hann. Konan biður svo um tryggingaupplýsingar.

Notendur geta aðeins hringt eitt símtal gjaldfrjálst með forritinu en eftir það þarf að borga fyrir notkun.

Aðeins er hægt að hringja einu sinni í gegnum forritið. Eftir það þarf að greiða fyrir þjónustuna.
Fréttablaðið/Ingunn Lára
Íslenskir leikarar lesa upp textann.
Mynd: Skjáskot