Flestir Íslendingar þekkja nafn Paul Gaimard vegna hins fræga ljóðs sem Jónas Hallgrímsson orti til hans, „Til herra Páls Gaimard“, en þar er að finna fleygar setningar, eins og „Vísindin efla alla dáð“. Færri vita deili á manninum. Nú hefur Árni Snævarr skrifað ævisögu franska vísindamannsins sem kom til Íslands sumrin 1835 og 1836 og stýrði þar vísindaúttekt. Bókin ber titilinn Maðurinn sem Ísland elskaði – Paul Gaimard og Íslandsferðir hans 1835-1836.

„Ég fann mikið af heimildum á skjalasöfnum en best nýttist dagbók Gaimard og þar fékk ég tengingu bæði við manninn og Ísland. Gaimard lærði íslensku meðan hann dvaldi hér og ég held að þessi viðleitni hans til að læra íslensku hafi gagnast honum mjög og átt þátt í að skapa velvild í hans garð. Hann þótti mjög alþýðlegur maður, viðkunnanlegur og var borin mjög vel sagan,“ segir Árni. „Þegar hann var hér á landi lét hann fólk á hverjum einasta bæ sem hann kom við á, og þeir voru margir, skrifa nafn sitt í dagbókina eða lét húsbóndann eða húsfreyjuna skrifa þau fyrir það heimilisfólk sem ekki var skrifandi. Þetta er lýsandi dæmi um eðlislæga forvitni hans og áhuga á fólki. Hann náði mun meiri tengslum við Íslendinga en þeir bresku aðalsmenn sem höfðu verið hér á undan honum og voru kannski mun merkari vísindamenn en hann. Gaimard var ekki framúrskarandi vísindamaður en þegar hann fór til Íslands í seinna skiptið þá var hann samt meðal annars að sinna verkefnum í samvinnu við ekki ómerkari mann en Alexander von Humboldt og leiðangursmenn voru í bréfaskriftum við Darwin.“

Engin helgisaga

Árni leggur áherslu á að hann sé ekki að skrifa helgisögu um Gaimard. „Ég er að skrifa sögu um mann sem hafði mikla galla og mikla kosti. Ég er að dusta rykið af einhverju sem við getum kallað neðanmálsgrein í íslenskri sögu. Við það að skoða þennan mann þá kynnumst við mikilvægum tíma í íslenskri sögu. Árið 1835 voru nokkur ár síðan Baldvin Einarsson kom fyrst með hugmyndina um að endurreisa Alþingi á Þingvöllum, Jónas Hallgrímsson var að koma fram sem skáld og Tómas Sæmundsson var nýkominn frá reisu sinni um Evrópu. Það sem var að gerast á Íslandi á þessum tíma var bein afleiðing af júlíbyltingunni í Frakklandi árið 1830. Gaimard sem hafði bakgrunn í byltingarhreyfingunni var öðrum þræði sendur hingað af konungi, sem skiptir máli.

Paul Gaimard.

Það skiptir líka máli að þegar hann kom til Kaupmannahafnar var hann iðinn við að sýna valdamönnum í Danmörku myndir og texta um Ísland. Um leið var Ísland allt í einu sýnt í ótrúlega jákvæðu ljósi. Það skiptir ekki síður máli að í Kaupmannahöfn blandaði hann geði við Íslendinga og hélt þeim boð sem fjallað var um í blöðum í Danmörku. Síðan var haldin hin fræga veisla Íslendinga í Kaupmannahöfn árið 1838 þar sem lofkvæði Jónasar til Gaimard var flutt. Allt þetta setur Gaimard á ákveðinn stað í íslenskri sögu.“

Bitur ummæli

Spurður hvernig maður Gaimard hafi verið segir Árni: „Hann var skemmtilegur og virðist hafa haft einlægan áhuga á fólki. Hann var sérlega jákvæður, ekkert kom honum úr jafnvægi. Hann lenti í alls kyns svaðilförum á ævinni og tók öllu með bros á vör. Samferðamenn hans skrifa einstaklega vel um hann með einni undantekningu. Hann og vísindamaðurinn Jean Quoy voru saman í tveimur hnattreisum og skrifuðu sameiginlega undir allt. Quoi var miklu merkilegri vísindamaður en Gaimard. Gaimard var leiðtoginn og framkvæmdamaðurinn sem fór og gerði hlutina en fylgdi þeim ekki eftir. Það kom í hlut Quoy að koma þeim síðan í sæmilegt horf.

Þegar Gaimard fór fyrst til Íslands þá var það þriðji stóri leiðangur hans en sá fyrsti þar sem Quoy var ekki með í för. Quoy var mjög bitur yfir því að Gaimard hóaði ekki í hann þegar hann fór til Íslands. Hann lifði lengur en Gaimard og hafði ekki áhuga á að halda sögu hans á lofti. Quoy skrifaði ýmis bitur ummæli um hann í handriti sem hann skildi eftir sig og þau festust við Gaimard.“