Lífsfletir er yfirskrift yfirlitssýningar á verkum Ásgerðar Búadóttur (1920-2014) á Kjarvalsstöðum. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.

„Sýningin spannar allan feril Ásgerðar og á henni eru rúmlega 50 verk, þau elstu frá því í kringum 1950. Ásgerður fór í klassískt myndlistarnám, var í Handíða- og myndlistaskólanum og fór síðan til Danmerkur í málaradeild við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Þegar hún kom heim frá Danmörku tók hún með sér vefstól en hafði ekki lært vefnað, enda var hann ekki kenndur í því námi sem hún stundaði. Ásgerður var sjálfmenntuð í listvefnaði og það var hennar miðill alla tíð,“ segir Aldís.

Vísaði í náttúruna

Aldís segir að Ásgerði hafi strax verið mjög vel tekið. „Hún fékk verðlaun fyrir verk sem hún sýndi í München 1956. Það kom henni á kortið og hún fór að sýna hér heima í kjölfarið, fyrsta sýningin var árið 1958 en þá sýndi hún með Benedikt Gunnarssyni. Hún tók þátt í fjölmörgum samsýningum og hélt einkasýningar, tók meðal annars þátt í norrænum farandsýningum og sýndi seinna með Svavari Guðnasyni í Danmörku.

Á sýningunni eru rúmlega 50 verk.

Sérstaða Ásgerðar í íslenskri myndlistarsögu er sú að hún er brautryðjandi á svið listvefnaðar á Íslandi. Í byrjun gerði hún fígúratíf verk en fór fljótlega að fikra sig yfir í að gera óhlutbundin verk. Hún vísaði mikið í náttúruna og náttúruhughrif, sérstaklega á áttunda áratugnum. Verkin fengu titil eins og Kröfluminni og Sól ræður sumri.

Aukin þrívíddaráhrif

Aldís segir að í verkum sínum hafi Ásgerður notað nánast eingöngu íslenska ull og fáa liti. „Í elstu verkunum var hún með litað band en notaði síðan aðallega í sauðaliti. Á sjöunda áratugnum fór hún að lita ullarbandið sjálf og þá notaði hún kaktuslús, indigo-lit og jurtalit og fékk með því bláa liti, rauða og appelsínugula.

Það sem einkennir líka verk Ásgerðar er að hún notaði oft hrosshár í verkin og þannig nær hún fram lífi í vefinn. Hún gerði einnig röggvateppi (rya) í þessum sama tilgangi, þráðurinn liggur laus á yfirborðinu og með því nást fram aukin þrívíddaráhrif og lyftir upp vefnaðinum.“