Verðlaunin sem í daglegu tali eru kölluð Óskarinn heita réttu nafni Academy Awards með vísan til þess að verðlaunin eru afhent í nafni Kvikmyndaakademíunnar í Hollywood.

 

Leikonan Bette Davis hélt því fram að hún hefði gefið verðlaunastyttunni nafnið Oscar í höfuðið á fyrsta eiginmanni sínum. Það mun þó hafa verið Margaret Herrick, ritari akademíunnar, sem á heiðurinn að nafngiftinni. Hún sá styttuna og sagði: “Hún er alveg eins og Oscar frændi”. Walt Disney varð fyrstur til að nota nafnið Oscar opinberlega þegar hann tók við Óskarsverðlaunum fyrir teiknimyndina um grísina þrjá.

 

Met Walt Disney

Walt Disney er sá einstaklingur sem hlotið hefur flest Óskarsverðlaun. Á löngum ferli urðu stytturnar alls 22. Fatahönnuðurinn Edith Head á kvennametið en hún vann 8 Óskara. Walt Disney var 59 sinnum tilnefndur til Óskarsverðlauna sem er metfjöldi tilnefninga. Tónskáldið John Williams er í öðru sæti með 51 tilnefningu og tónskáldið Alfred Newman hefur hlotið 43 tilnefningar.

 

Yngsti og elsti sigurvegarinn

Tatum O'Neal er yngsti sigurvegari Óskarsverðlaunanna. Hún fékk tíu ára gömul verðlaunin fyrir bestan leik í aukahlutverki kvenna í myndinni Paper Moon.

Christopher Plummer er elsti Óskarsverðlaunahafi sögunnar. Hann var 82 ára þegar hann fékk verðlaunin fyrir bestan leik karla í aukahlutverki í myndinni Beginners. Í ár er hann, 88 ára, tilnefndur fyrir leik sinn í All the Money in the World og getur því slegið eigið met.

Þau brutu blað

Árið 1939 varð Hattie McDaniel fyrst allra þeldökkra til að hljóta Óskar. Hún fékk verðlaunin sem besta aukaleikkonan í stórmyndinni Á hverfanda hveli, þar sem hún stal senunni hvað eftir annað. Hún var einnig fyrst afrísk-amerískra til að vera gestur á hátíðinni. Hún sat aftast í salnum, nálægt eldhúsinu.

Árið 1964 varð Sidney Poiter fyrsti afríski-amríkaninn til að vinna verðlaunin fyrir bestan karlleik í aðalhlutverki í myndinni Lilies of the Field. Louis Gossett jr. varð síðan sá fyrsti til að vinna Óskar fyrir bestan karlleik í aukahlutverki, Það var árið 1982 og myndin var hin rómantíska An Officer and a Gentleman.

Árið 2001 varð Halle Berry fyrsta þeldökka konan til að fá Óskar fyrir leik í aðalhlutverki. Það var fyrir stórleik í myndinni Monster Ball en hlutverkið hafði upphaflega verið ætlað hvítri leikkonu.

Stolnar styttur

Árið 1937 hlaut leikkonan Alice Brady Óskarsverðlaun fyrir bestan leik kvenna í aukahlutverki í kvikmyndinni In Old Chicago. Hún var ekki viðstödd vegna veikinda en ókunnur maður fór upp á svið, tók við styttunni og lét sig síðan hverfa hið snarasta. Hvorki hafðist upp á honum né styttunni. Leikkonunni var send önnur stytta.

Árið 1999 var 54 Óskarsverðlaunastyttum stolið úr vöruhúsi en allar nema þrjár fundust seinna í gámi. Um svipað leyti varð klúður hjá póstþjónustu Bandaríkjanna þegar nokkur hundruð atkvæðaseðlar meðlima akademíunnar rötuðu ekki á réttan stað. Þessar uppákomur urðu aðaluppistaðan í bröndurum hins gríðarlega fyndna Billy Crystals sem var kynnir á Óskarsverðlaunahátíðinni það árið.

 

Þakkarræður sem tekið var eftir

Lengsta þakkarræða í sögu Óskarsverðlaunanna er ræða Greer Garson árið 1942. Hún var valin besta leikkona ársins fyrir leik sinn í Mrs. Miniver. Ræða hennar stóð í sex mínútur meðan gestir andvörpuðu, geispuðu og litu á úr sín.

 

Þakkarræður á Óskarsverðlaunahátíðum eru orðnar æði margar og ein þeirra varð innblástur að kvikmynd. Þegar Tom Hanks flutti þakkarræðu sína eftir að hafa fengið Óskarinn fyrir leik sinn sem eyðnismitaður lögfræðingur í Philadelphia þakkaði hann leiklistarkennara sínum í miðskóla og tók fram að sá væri samkynhneigður. Þetta vakti mikla athygli á viðkomandi kennara sem þá var 69 ára og afar hlédrægur. Hann er er sagður hafa furðað sig á því hvernig Hanks vissi af samkynhneigð hans. Seinna var gerð gamanmyndin In and Out með Kevin Kline í aðalhlutverki en þar heldur sigurvegari á Óskarsverðlaunahátíð þakkarræðu þar sem hann vekur athygli á samkynhneigð kennara síns með tilheyrandi vandræðum fyrir kennarann sem hafði engan veginn áttað sig á eigin samkynhneigð.

 

Afundinn Scott

Árið 1962 var George C. Scott tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir bestan karlleik í aukahlutverki í The Hustler. Hann sendi akademíunni bréf og bað um að nafn sitt yrði tekið af listanum. Ekki varð orðið við þeirri beiðni hans.

Árið 1970 var hann tilnefndur sem besti karlleikari í aðalhlutverki fyrir stórleik sinn í Patton. Aftur sendi hann bréf og fór fram á að nafn sitt yrði tekið af listanum. Enginn hlustaði á þá ósk hans.

Scott mætti vitanlega ekki á verðlaunahátíðina en stóð uppi sem sigurvegari. Honum var send styttan en hann endursendi hana til akademíunnar. Árið 1982 kom Scott í fyrsta sinn á Óskarverðlaunahátíð og fékk tvo miða aftarlega í húsinu.

Brando gerir allt vitlaust

Marlon Brando vann önnur Óskarsverðlaun sín árið 1972 fyrir leik sinn í Guðföðurnum. Hann var ekki viðstaddur athöfnina en á svið kom ung kona í indjánabúningi. Hún sagðist heita Sacheen Litlafjöður og tilkynnti að Brando gæti ekki tekið við verðlaunum vegna þess hvernig Hollywood og bandarískt samfélag hefði komið fram við frumbyggja landsins. Seinna kom í ljós að þessi óvænti gestur var ekki af indjánaættum, hún var leikkona sem seinna sat fyrir hjá tímaritinu Playboy.

 

Mikilvægt atkvæði

Árið 1968 var Barbra Streisand tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir frumraun sína á hvíta tjaldinu í Funny Girl. Reglur akademíunnar voru þá þannig að leikari gat ekki orðið meðlimur fyrr en tveimur árum eftir frumsýningu fyrstu myndar hans.

Forseti akademíunnar, Gregory Peck, veitti Streisand undanþágu frá þessari reglu sem varð til þess að hún fékk atkvæðisrétt og gat kosið sjálfa sig. Atkvæði hennar var mikilvægt því hún og Katharine Hepburn fengu jafnmörg atkvæði og sitt hvora Óskarsverðlaunastyttuna.