„Það verður alltaf að vera vettvangur fyrir fávita af því að fólk á svo auðvelt með að haga sér eins og fávitar. Við Hafnfirðingar og aðrir höfum nú alltaf kappkostað að þjóna fávitum þessa lands með einhverjum hætti og erum að koma til móts við þetta fólk,“ segir Gísli Ásgeirsson, umsjónarmaður Facebook-hópsins sem heitir núna Fávitavarpið í Meradölum en var kenndur við Geldingadali þegar til hans var stofnað á síðasta ári til höfuðs öllum þeim sem fundu sig knúna til þess að geifla sig framan í vefmyndavél RÚV frá eldsumbrotunum þar.

Gísli telur skjáskotið sýna fullkomna fulltrúa þeirra sem fara að gosstöðvunum. „Tvær eru svo aulalegar að það hálfa væri nóg og hinar tvær hafa örugglega dressað sig upp fyrir ferðina og eru bara að vera með og líta vel út.“
Mynd/Skjáskot

Yfirlýst markmið hópsins hefur frá upphafi verið að safna skjáskotum af fólki sem gerði í því að trufla vefútsendingu RÚV og fara þannig markvisst í fínustu taugar margra sem kusu að fylgjast með náttúruhamförunum úr öruggri fjarlægð úr sófanum heima hjá sér.

Fullkomin hneykslunarhraunhella

„Ég reikna með að þarna muni fyllast af myndum þegar líður á næstu viku þegar fólki sem er að fara í annað og þriðja sinn fer náttúrlega að leiðast að horfa á gosið og taka „selfies“ og fer þá upp í brekkuna að myndavélinni, hringir heim og veifar og svoleiðis. Og það er svoleiðis fólk sem við viljum endilega fá,“ segir Gísli og víkur síðan að fólkinu hinum megin við vefmyndavélina. Meðlimum hópsins sem nú eru um 6.800 manns.

„Þarna er líka fullt af fólki sem fær mikla útrás fyrir að hneykslast á öðrum af því að Facebook er fyrst og fremst vettvangur fyrir fólk sem vill hneykslast og móðgast, bæði fyrir sína hönd og annarra, þá er Fávitavarpið í Meradölum hinn fullkomni vettvangur fyrir það,“ segir Gísli og telur rétt að taka fram að hann hafi erft hópstjórnina þegar stofnandinn Halldór Högurður hætti á Facebook.

Funheitur arfur

„Svo hætti hann á Facebook, mannfýlan, sá ágæti maður, vegna þess að ég held að honum hafi leiðst miðillinn sem er í eðli sínu ekkert sérstaklega skemmtilegur vettvangur. En ókei. Svo bara sit ég uppi með þetta og af því að ég er kominn á eftirlaun og hef ekkert mjög mikið að gera svona öðru hverju þá sinni ég þessu af því að ég veit að Halldór hefði viljað það.

„Svona nálægt og þarna er krakki!“ Hneykslunarefni vissulega.
Mynd/Skjáskot

Auðvitað byrjaði þetta sem einn risastór brandari, svo vatt þetta upp á sig og Halldór var mjög ófeiminn við að rífa stólpakjaft við fólk þannig að á tímabili rigndi inn kvörtunum í skilaboðahólf mitt þar sem ég var beðinn um að hafa hemil á honum, ég beðinn að tala við hann, eins og þarf stundum að tala við fólk, og svo var maður sem sagðist vera að safna ummælum hans og ætlaði að höfða mál. Ég held að Halldór hafi kallað hann einhverjum svona ónefnum og efast um greind hans og almenna skynsemi og það er alveg nóg fyrir suma.“

Mynd/Skjáskot

Gísli segist þó frekar hafa reiknað með því að þessu verkefni hans væri lokið enda var síðasta færslan í hópnum, áður en byrjaði að gjósa í vikunni, frá 27. desember 2021 og snerist um tíðindaleysið á eldstöðvunum.

„Jú, það hélt maður og þess vegna kom þægilega á óvart að þetta skyldi koma aftur upp og ég held að þessi umfjöllun muni vonandi hleypa nýju lífi í hópinn og höfða bæði til fávita og hneykslunargjarnra og þá er tilganginum náð.“