Það er vel hægt að vera glæsilega til fara í regnkápu. Þær eru til í mörgum fallegum litum og sniðum. Regnkápa er eiginlega skyldueign á Íslandi. Væri ekki sniðugt að lyfta upp gráum hversdagsleikanum með litríkri flík? Saga regnkápunnar er reyndar orðin ansi löng, en í fyrstu var hún í raun rykfrakki, sem við þekkjum enn í dag og er klassísk flík.

Það var árið 1821 sem skoskur efnaverkfræðingur, Charles Macintosh, fann upp aðferð sem sameinaði gúmmí og efni þannig að hægt væri að nota það í vatnshelda flík. Þessi uppfinning er enn í fullu gildi og í Bretlandi eru vatnsheldir rykfrakkar gjarnan kallaðar Macintosh eða Macs. Efnið var notað í tvíhneppta frakka á hermenn á stríðstímum. Flestir þekkja Burberry og Barbour frakkana, sem eiga uppruna sinn til þessarar uppfinningar. Helstu breytingar komu með nýju efni, Gore-Tex, sem er vatnshelt og andar, sem eldri efni höfðu ekki gert. Gore-Tex kom fyrst á markað árið 1969 en hefur þróast síðan og er notað í margvíslegan útivistarklæðnað og skó.

Gulir regnstakkar hafa lengi þótt vera sjómannaklæðnaður. Þeir áttu að verja fiskimenn fyrir ágangi hafsins. Gulir regnjakkar hafa síðan orðið mjög vinsælir sem tískuflíkur. Í Hollywoodmyndinni Singin’ in the Rain frá árinu 1952 eru aðalleikendur myndarinnar í litríkum regnkápum, það eru þau Gene Kelly og Debbie Reynolds. Þá er frægt rómantískt atriði úr kvikmyndinni Fjögur brúðkaup og jarðarför frá árinu 1994, þegar Andie McDowell og Hugh Grant kysstust í dembandi rigningu og setningin sem kom þar á eftir: „Rignir enn?“ spurði hún og svarið kom: „Ég hafði ekki tekið eftir því.“

Það mætti líklegast segja að það geti verið rómantískur blær yfir rigningunni og alveg óþarfi að kvarta þótt veðurguðirnir væti aðeins í jörðinni.

Gitta Banko er frægur áhrifavaldur á samfélagsmiðlum. Hér mætir hún á tískuviku í París í blárri regnkápu.
Glæsileg regnkápa frá Oroton sem er eitt elsta og frægasta hönnunarhús í Ástralíu.
Burberry regnkápa en þær hafa skipað sér sérstakan sess í tískuheiminum.
Glæsileg regnkápa frá Elie Tahari sem er bandarískt fyrirtæki.
?Louis ­Vuitton lætur ekki sitt eftir liggja í hönnun á regnkápum. Þessi var sýnd á tískuviku í París fyrir sumarið 2020.
Gul regnkápa frá Fendi. Ekki amalegt að eiga eina svona.
Ekki fylgdi sögunni með þessari mynd hvaðan þessi regnkápa væri, en sú sem ber hana er Larsen Thompson, leikkona, dansari og fyrirsæta.