Píanó­stjarnan Jamie Cullum kemur fram á tón­leikum í Eld­borg 15. mars. Jamie er einn vin­sælasti tón­listar­maður sinnar kyn­slóðar og plata hans Twen­ty­so­met­hing gerði hann að mest selda djass­tón­listar­manni Bret­lands þegar hún kom út 2003. Jamie var staddur á heimili sínu í Bret­landi þegar blaða­maður náði tali af honum og kvaðst vera spenntur að koma aftur til Ís­lands en hann spilaði síðast í Hörpu árið 2011.

„Ég er mikið til heima um þessar mundir að semja tón­list og er ekki svo mikið að túra. Raunar eru tón­leikarnir mínir á Ís­landi ein­stakt til­vik. Ég var í við­tali í út­varpinu þar sem ég var spurður að því hvar í röðinni Ís­land væri í túrnum og svaraði að þetta væri eigin­lega bara Ís­land. Við erum í raun bara að koma af því okkur langaði til þess,“ segir Jamie.

Jamie Cullum spilaði síðast á Íslandi í Hörpu árið 2011 og var fyrsta erlenda poppstjarnan til að koma fram í tónlistarhúsinu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Heillaður af Ís­landi

Þú spilaðir síðast á Ís­landi fyrir rúmum ára­tug, hvað fékk þig til að vilja koma aftur?

„Ég hafði mjög gaman af þeim tón­leikum. Í fyrsta lagi er Harpa frá­bær tón­leika­staður, virki­lega fal­legt tón­leika­hús sem er gaman að spila í og með æðis­legan hljóm­burð. Ég varð virki­lega heillaður af Ís­landi og mér finnst maður komast mjög ná­lægt innsta kjarna plánetunnar á Ís­landi. Það hljómar kannski eins og klisja en fyrir gest eins og mig þá varð ég virki­lega hel­tekinn og inn­blásinn af landinu. Við ætlum að koma daginn fyrir og dvelja að­eins lengur en við þurfum fyrir tón­leikana.“

Spurður um hvers konar efni á­horf­endur geta búist við að heyra segist Jamie ætla að spila blöndu af frum­sömdu efni og þekktum á­breiðum eins og hans er von og vísa.

„Í ljósi þess að fyrsta platan mín sem gefin var út af stóru plötu­fyrir­tæki kom út fyrir tuttugu árum þá hef ég verið að heim­sækja alla kima tón­listar minnar undan­farið. Allt frá upp­hafi til dagsins í dag, þannig að þetta verður sann­kallaður þver­skurður alls sem ég hef gert undan­farna tvo ára­tugi,“ segir hann.

Mér finnst Twen­ty­so­met­hing hljóma eins og káti og æsti ungi maðurinn sem ég var á þeim tíma. Ég held að hún nái því mjög vel.

Erfitt að horfa til baka

Twen­ty­so­met­hing eða Tuttuguogeitt­hvað var þriðja stúdíóplata Jamie Cullum og skaut honum upp á stjörnu­himininn þegar hún kom út haustið 2003 og hefur síðan þá selst í nokkrum milljónum ein­taka. Cullum segir að til standi að endur­út­gefa plötuna á vínyl í til­efni tuttugu ára af­mælis hennar.

„Það er erfitt fyrir mig að horfa til baka af því að sem skapandi manneskja þarf maður að geta greint á milli þess sem var best heppnað markaðs­lega séð og því sem manni finnst vera best heppnað list­rænt séð. Mér finnst Twen­ty­so­met­hing hljóma eins og káti og æsti ungi maðurinn sem ég var á þeim tíma. Ég held að hún nái því mjög vel og upp­töku­stjórinn Stewart Levine hjálpaði virki­lega við að fanga eitt­hvað sem var bara partur af tíðar­andanum.

Ég var svo hrekk­laus og spenntur og dróst að djass­tón­list en líka Radiohead og Jimi Hendrix, það náðist að fanga allt þetta á plötuna á hátt sem ég gæti ekki gert núna af því ég er annar maður í dag. List­rænt séð finnst mér ég líka vera orðinn miklu betri píanó­leikari, söngvari og laga­höfundur en ég var þá,“ segir Jamie.

Twen­ty­so­met­hing var þriðja stúdíóplata Jamie Cullum og skaut honum upp á stjörnu­himininn þegar hún kom út haustið 2003.
Mynd/Aðsend

Al­gjör fer­tugsplata

Þótt Jamie sé kominn annað segist hann gera sér grein fyrir því að margir haldi enn upp á Twen­ty­­so­me­t­hing enda er hann sjálfur mikill tón­listar­unnandi sem hefur gaman af fyrstu plötum lista­manna. Spurður um hvort hann telji sig hafa þroskast mikið sem lista­maður undan­farin tuttugu ár segir Jamie: „Já, fjandinn hafi það, ég vona það alla vega.“

Er kominn tími á fram­hald? Myndir þú í­huga að gera plötuna For­ty­so­met­hing, eða Fjöru­tíu og eitt­hvað, núna?

„Guð minn góður, ég held að síðasta platan mín sé al­gjör fjöru­tíu og eitt­hvað-plata miðað við það sem ég samdi fyrir hana. En mér finnst alltaf betra að horfa fram á við af því það er í raun eina leiðin til að ná ein­hverjum fram­förum. Ég er ekki ein­hver sem finnst gaman að endur­heim­sækja hluti, það kemur alla vega ekki náttúru­lega til mín, vegna þess að ég er fyrst og fremst tón­listar­maður og laga­höfundur. Að feta gamlar slóðir finnst mér ekki vera fram­för per­sónu­lega, kannski eru ein­hverjir sem hafa gaman af því en ég vil frekar bara halda á­fram.“

Mér finnst alltaf betra að horfa fram á við af því það er í raun eina leiðin til að ná ein­hverjum fram­förum.

Tón­listar­maður og út­varps­maður

Jamie Cullum hefur haldið úti viku­legum djass­þætti á BBC Radio 2 síðan 2010 þar sem hann fær til sín góða gesti úr tón­listar­heiminum. Hann segir djass­heiminn í dag vera mjög frjó­saman og fjöl­breyttan.

Hvað eru eftir­minni­legustu augna­blikin úr þættinum þínum og eftir­minni­legustu gestirnir?

„Þau eru svo mörg. Til dæmis að fá að vera einn af þeim fyrstu til að spila fólk eins og Gregory Porter, Jacob Colli­er og Lady Black­bird í út­varpinu, tón­listar­menn sem hafa síðan vakið at­hygli í megin­straumnum og gert mjög góða hluti. Að takast að varpa ljósi á eitt­hvað sem er gott og að sjá það ná árangri lætur manni líða eins og maður sé að gera eitt­hvað gott fyrir tón­listar­sam­fé­lagið og gerir manni kleift að baða sig í hæfi­leikum annarra.

Það er mikil gjöf að geta notið þess þegar öðrum gengur vel í stað þess að verða af­brýði­samur og líða eins og það láti þig líta illa út. Að vinna í út­varpi gefur manni tæki­færi til að njóta vel­gengni og hæfi­leika annarra og það finnst mér vera góð leið til að lifa lífinu.“

Jamie segist vera að vinna í nýrri plötu en veit ekki hvenær hún kemur út.
Mynd/Aðsend

Ný plata á leiðinni

Jamie Cullum er að mestu leyti sjálf­lærður tón­listar­maður en kveðst þó hafa byrjað að sækja sér einka­tíma í píanó­leik í Co­vid-far­aldrinum, inn­blásinn af börnunum sínum.

Finnst þér námið hafa breytt því hvernig þú nálgast tón­list?

„Nei, það hefur bara gefið mér fleiri liti til þess að mála með og gert mig auð­mýkri. Af því að þegar maður lærir eitt­hvað og sér fólk sem er virki­lega hæfi­leika­ríkt þá áttar maður sig á því hversu mikið það hefur þurft að hafa fyrir því.“

Síðasta stúdíóplata Jamie er jóla­platan The Pianoman at Christ­mas sem kom út 2021. Spurður um hvort von sé á nýrri plötu segir hann:

„Já, ég er að vinna í henni akkúrat núna. Það er bók­staf­lega það sem ég er að fara að gera þegar við klárum þetta spjall. Hún er á leiðinni, ég veit ekki hve­nær hún verður til­búin en hún er á leiðinni og ég er á­nægður með það sem er komið hingað til.“

Mikil­vægt að njóta tón­listarinnar

Hvaða ráð myndir þú gefa ungum tón­listar­mönnum sem eru að stefna á at­vinnu­mennsku í tón­list?

„Fyrst og fremst myndi ég segja að það sé mikil­vægt að þú gerir tón­list sem þú getur virki­lega staðið með. Það hljómar kannski aug­ljóst en það kemur á ó­vart hversu mikið af fólki hefur á­hyggjur af því hvort ein­hver á­kveðin manneskja vilji hlusta á tón­listina þeirra og hvort það sé lík­legra að þau fái plötu­samning ef þau spili á­kveðna týpu af tón­list. Vanda­málið við það er í fyrsta lagi að ef þú nærð árangri þannig þá ertu fastur með eitt­hvað sem þú hefur ekki fulla trú á, starfið er mun erfiðara en fólk heldur og sér­stak­lega ef þú elskar það ekki. Og í öðru lagi þá gefur það þér ekki mögu­leikann á fram­förum og lang­lífi í bransanum.“

Jamie bætir því við að honum finnist það vera merki um árangurs­ríkan tón­listar­feril þegar tón­listar­menn hafi á­nægju af því sem þeir gera eftir mörg ár í bransanum.

„Maður á alltaf að reyna að hafa gaman af því sem maður er að gera af því á­horf­endur bregðast við því. Ef þeir sjá eða heyra að þú virki­lega elskar það sem þú ert að gera og ert með djúpa tengingu við það þá er lík­legra að þú náir árangri,“ segir Jamie.