„Það kemur í minn hlut að fara fyrstur að vélinni“, segir Guðlaugur Þórðarson sem í aftakaveðri kom sem björgunarmaður með félögum sínum fyrstur að flugslysinu í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi árið 1986 þar sem fimm létust en tveir björguðust.

„Ég kem að vélinni þar sem hún er opin, vængurinn hægra megin er brotinn af henni og vélin er opin og ég sé að það er látið fólk, maður liggur hálfur út úr vélinni, annar er klesstur ofaní mælaborðið, flugmaðurinn situr teinréttur í sætinu og mér fannst eins og hann væri lifandi, það voru fyrstu viðbrögð,“ segir Guðlaugur frá en flugmaðurinn lést í slysinu.

„Fyrir aftan hann situr svo maður sem er mjög illa farinn, alblóðugur í andliti og mjög illa farinn i andliti vægast sagt,“ er meðal þess sem kemur fram í frásögn Guðlaugs í þættinum Útkall í kvöld.

Brot úr viðtali Óttars Sveinssonar má sjá í spilaranum hér:

„Flugmaðurinn situr teinréttur í sætinu og mér fannst eins og hann væri lifandi, það voru fyrstu viðbrögð“

Einn af farþegunum var með enn meðvitund þegar björgun barst en það var Pálmar Gunnarsson, lögreglumaður frá Ísafirði. Pálmar var farþegi í vélinni ásamt eiginkonu sinni og hélt um eins árs látna dóttur sína í fanginu í flugvélarflakinu, náði ekki til konu sinnar og sá líf hennar fjara út.

Þeir sem lifðu flugslysið af biðu í ellefu klukkustundir eftir hjálp. Von eins farþeganna í vélinni hangir á bláþræði en hann missir konu sína og barn í slysinu. Hrikalegt ofviðri í Snæfellsnesfjallagarðinum veldur björgunarmönnum ótrúlegum erfiðleikum og þyrlan TF-SIF flýgur hættuflug í náttmyrkri.

Þátturinn er frumsýndur í opinni dagskrá á Hringbraut Kl.19.30

Í þáttunum Útkall fer Óttar yfir frásagnir sem komið hafa út í bókum hans – hann fær til sín fólk sem upplifðu átakanleg slys eða hafa tengingu við þá sem tengjast þeim atburðum sem um er fjallað hverju sinni.

Alla frásögnina er að finna í bókinni: Útkall - Ofviðri í Ljósufjöllum