Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, til­kynnti um nýjar til­slakanir á sam­komu­tak­mörkunum í dag. Sam­kvæmt nýju reglunum mega 500 manns koma saman frá og með mið­nætti og hækkar talan upp í 1500 ef hrað­próf eru notuð.

Því er ljóst að loksins verður hægt að halda stærri við­burði svo sem tón­leika og auð­vitað hin lang­þráðu mennta­skóla­böll. Frétta­blaðið sló á þráðinn hjá for­mönnum nem­enda­fé­laga þriggja mennta­skóla á höfuð­borgar­svæðinu sem lýstu allir yfir mikilli gleði að mega loksins halda böll.

„Við erum himin­lifandi, öll at­hygli okkar núna beinist að því að plana ball,“ segir Jón Bjarni Snorra­son, for­maður nem­enda­fé­lags Borgar­holts­skóla.

Jón Bjarni Snorra­son, for­maður nem­enda­fé­lags Borgar­holts­skóla.
Mynd/Aðsend

Mikill uppsafnaður peningur

Jón Bjarni er einn vin­sælasti Twitter-notandi landsins og hefur mikið tjáð sig um ball­hall­æri mennta­skóla­nema undan­farið. Hann er sjálfur á öðru ári í Borgar­holts­skóla og hefur því aldrei fengið að fara á ball á sinni mennta­skóla­göngu.

„Ég skal samt alveg viður­kenna að ég upp­lifði alveg góða ball­menningu í Haga­skóla, hann er náttúr­lega frekar stór. Þannig ég er ekkert alveg miður að hafa ekki farið á stórt ball en það er samt náttúr­lega grút­fúlt að fá ekki að fara á al­vöru mennta­skóla­ball,“ segir hann.

Jón Bjarni segir að böllin í Borgó muni verða stærri en nokkru sinni fyrr vegna þess hversu mikinn upp­safnaðan pening nem­enda­fé­lagið hefur úr að moða sem ekki hefur tekist að nota yfir Co­vid.

„Það eru alveg svaka fjár­hæðir að fara í það núna,“ segir Jón Bjarni sem lýsir það sem sinni skyldu að halda al­menni­legt ball fyrir sam­nem­endur sína.

En munu ekki mennta­skóla­nemar bara missa sig þegar þeir fá loksins að djamma eftir eitt og hálft ár?

„Jú, ég vona það alla­vega,“ segir Jón Bjarni.

Hekla Dís Kristins­dóttir, for­maður Keðjunnar.
Mynd/Aðsend

Byrjuð að leita að sal

Hekla Dís Kristins­dóttir, for­maður Keðjunnar nem­enda­fé­lags Kvenna­skólans í Reykja­vík, segist vera mjög spennt fyrir fréttunum og er byrjuð að leita að nógu stórum sal til að halda fyrsta ballið á.

Hún er sjálf á sínu loka­ári í Kvennó og rétt náði að fara á þrjú böll áður en Co­vid skall á.

„Þannig þetta er geggjað. Að klára árið og skólann svona al­menni­lega,“ segir Hekla.

Að sögn Heklu eru margir af sam­nem­endum hennar mjög svekktir yfir skemmtana­leysi undan­farinna tveggja ára og þá sér­stak­lega nemarnir sem út­skrifuðust í vor og svo auð­vitað annars árs nemarnir sem hafa ekki fengið að fara á eitt einasta ball.

„Þeir eru mjög spenntir fyrir al­vöru mennta­skóla­lífi,“ segir hún og bætir við að nú fari í hönd mikil skipu­lagning fyrir önnina sem nær há­punkti sínum með Epla­ballinu í nóvember.

Sól­rún Dögg Jósefs­dóttir, ins­pector schola­e Skóla­fé­lags MR.
Mynd/Aðsend

Al­gjör­lega í skýjunum

Sól­rún Dögg Jósefs­dóttir, ins­pector schola­e Skóla­fé­lags MR, tekur í sama streng en hún hafði raunar ekki heyrt nýjustu fréttirnar um 1500 manna við­burði þegar blaða­maður hringdi í hana.

„Það er svo mikið að gera að ég hef ekki alveg gerst svo fræg að lesa allar fréttirnar, þannig ég var ekki alveg komin með þetta á hreint. En við erum vissu­lega í fullum gangi að skipu­leggja þannig að við gætum verið að halda við­burði sem alla fyrst og eins stóra og mögu­legt er,“ segir Sól­rún.

Að­spurð um hvort að MR-ingar sem hafi ef til vill ekki fengið að fara á eitt einasta ball séu spenntir fyrir fréttunum segir Sól­rún:

„Við erum al­gjör­lega í skýjunum yfir þessu.“