Bókin Mennirnir með bleika þríhyrninginn hefur nú verið endur­útgefin af útgáfunni Sögufélagi. Bókin inniheldur frásögn manns sem sendur var í fangabúðir nasista þar sem hann var merktur með hinum bleika þríhyrningi vegna samkynhneigðar sinnar.

Um er að ræða endurútgáfu bókarinnar í þýðingu Guðjóns Ragnars Jónassonar sem fyrst kom út árið 2013. Til viðbótar við endurútgáfu ritar sagnfræðingurinn Hafdís Erla Hafsteinsdóttir ítarlegan eftirmála sem tengir frásögn bókarinnar við nútímann en hún segir að bókin eigi enn mikið erindi við samtímann.

„Bókin hefur verið uppseld í áraraðir og það hefur alltaf verið eftirspurn eftir henni þar sem hún er meðal annars vinsæl til kennslu,“ segir Hafdís Erla en hún segir bókina innihalda eina heildstæða vitnisburð manns sem fór í gegnum fangabúðir nasista með hinn bleika þríhyrning. „Ef ekki væri fyrir þessa frásögn þá myndum við vita mjög lítið um örlög þessa hóps,“ segir Hafdís Erla.

Höfundur bókarinnar er titlaður sem Heinz Heiger en hinn raunverulegi sögumaður hennar var Josef Kohout en Hafdís segir að „með klókindum og stórum skammti af heppni tókst honum að sigla á milli skers og báru.“ Hann lá á frásögn sinni í tvo áratugi áður en bókin kom fyrst út árið 1972.

„Bókin er ágætis áminning um það hvernig samfélög geta umturnast,“ segir Hafdís og bætir við: „Við tengjum vel við Þýskaland í dag og ungt fólk þekkir Berlín sem mjög frjálslynda höfuðborg sem er framsækin í listum og menntun. En það er ekkert langt síðan þessi þjóð var fullkomlega á röngunni við það sem hún stendur fyrir í dag,“ segir Hafdís.