Ferðamenn deila sögum um helstu menningarsjokkin við að koma til Íslands inn á Facebook grúppunni Iceland Q&A. Fyrirtækið NýrBýr varpaði fram spurningunni og hafa rúmlega 200 manns svarað.

Fréttablaðið tók saman nokkur vel valin svör.

Íslendingar hræðilegir ökumenn

Karl Kelly nokkur hafði þetta að segja: „Það er mikill félagslegur munur, mannasiðir og hvernig fólk keyrir.“

Annar meðlimur hópsins tók undir með Kelly og sagði að Íslendingar væru hræðilegir ökumenn.

Enskukunnátta Íslendinga til fyrirmyndar

Bretinn Dayle Neary var hissa á enskukunnáttu Íslendinga: „Það kom mér á óvart að allir töluðu ensku! Ég eyddi sex vikum í að læra nokkra góða íslenska frasa og þurfti aldrei að nota þá þegar ég ferðaðist um Ísland í fyrsta skipti.“

Svindlað á sér

Fabian Főldi segir að íslenskt fyrirtæki hafi svindlað á sér og deildi færslu frá Eflingu um starfsmannaleiguna Menn í vinnu. Tveir aðrir tóku undir með Fabian og sögðu að það væri algengt að svindlað væri á útlendingum á Íslandi.

Ekkert augnsamband úti á götu

Ísabel Díana sagði þetta: „Fólk horfir ekki í augun á hvort öðru á almannafæri.“

Þá svaraði annar notandi: „Þá líður mér eins og ég sé heima hjá mér. Þetta er alveg eins í London.“

Enginn bjór

Laura Valentino lýsti yfir vonbrigðum með að hafa ekki fundið neinn bjór á Íslandi. Þá voru margir fljótir að benda henni á að vínbúðir séu ríkisreknar og að venjulegar verslanir seldu ekki bjór.

Þá benti Laura fólki á að hún hefði heimsótt Ísland árið 1988, áður en bjórbanninu var aflétt.

Egglykt í sturtunni

„Lyktin af brennisteini þegar þú ferð í sturtu!!!“ skrifar Marion Graham. Fjölmargir tóku undir með henni um að lyktin væri skrýtin. Nokkrir héldu því fram að það færi eftir pípulögnum í hverjum bæ fyrir sig. Á Akranesi og í Keflavík væri minni lykt en til dæmis í Reykjavík.

Aðrir bentu á að það snerist frekar um uppsprettu heita vatnsins.

Allir kurteisir við kassastarfsmenn

Britney McGirr-hartford sagðist hafa verið í sjokki þegar hún tók eftir því hversu kurteisir allir væru við kassastarfsmenn. Hún segir að það eigi ekki við um Bandaríkin. Hún hafi verið hissa þegar yfirmaður hennar á Íslandi bað viðskiptavin um að biðja hana afsökunar eftir að hann var dónalegur við hana

Sjúga upp í nefið

Fjölmargir lýstu yfir viðbjóði við að heyra Íslendinga sjúga upp í nefið í staðinn fyrir að snýta sér.

„Þegar fólk sýgur upp í nefið í staðinn fyrir að snýta sér,“ skrifar ein.

Þá svarar Valdís Lovisa Warén: „Í guðanna bænum það er svo ógeðslegt að heyra fólk sjúga upp í nefið og ég muna aldrei venjast því.“

„Ég hef tekið eftir því að þau selja ekki margnota vasaklúta til að geyma í vasanum. Við erum svo vön að nota vasaklúta í Bretlandi,“ sagði Charlotte Bolt.

Hlé í bíói

Anna Otsolainen furðaði sig á hléum í bíói.

„Þau þau gera hlé á bíómyndum þegar þær eru hálfnaðar. Það er þaðp furðulegasta sem ég veit um. Þarna er verið að byggja um spennu og tilfinningar í myndinni og svo bara slökkva þeir á henni...“