Fyrirsætan Ísold Halldórudóttir hefur ferðast um allan heim vegna starfsins og meðal annars unnið með þekktum vörumerkjum eins og Dazed Magazine og Marc Jacobs. Hún segir að samkeppnin sé hörð og það sé nauðsynlegt að þola höfnun, en fyrirsætustörfin hafi kennt henni að vera stolt af eigin líkama og elska sjálfa sig.

Ísold, sem verður 24 ára í ágúst, segist líta á sig sem menningarlegan sígauna. „Ég er alltaf á flakki. En mér finnst erfitt að lýsa sjálfri mér,“ segir hún. „Hvenær veit maður í rauninni hver maður er? Ég er endalaust að þróast og með tímanum er ég orðin allt öðruvísi manneskja en ég var fyrir viku síðan.“

Ísold segir að hún hafi ekki vitað hvað hana langaði að verða þegar hún var yngri og að hún hafi ekki haft áhuga á fyrirsætustörfum lengi áður en hún fór að starfa sem slík. „En ég hef alltaf verið mjög listnæm og hef þróast mjög mikið með listinni,“ segir hún.

Í nýrri herferð Marc Jacobs

Fyrirsætuferillinn hófst svo í lok ársins 2016. „Ég tók þátt í keppni fyrir Love Magazine, sem er tímarit úti í Bretlandi. Keppnin var eftirsótt af fólki um allan heim því hún bauð upp á tækifæri til að fá auglýsingu í blaðinu og hún var mynduð af Kendall Jenner,“ segir hún. „Eftir það hélt ég áfram að vinna sem fyrirsæta og þó að byrjunin hafi verið hæg hélt það ekki aftur af mér og ég lét það ekki koma í veg fyrir að ég elti drauma mína.

Ísold segir að þrátt fyrir hæga byrjun á ferlinum hafi hún ekki látið neitt aftra sér frá því að elta drauma sína.

Eitt af stærstu verkefnunum mínum var þegar ég vann með Dazed Magazine í fyrra. Þar birtust 12 blaðsíður af mér í flíkum eftir þekkta hönnuði, þar á meðal Vivienne Westwood. Það var eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður,“ segir Ísold. „En nýjasta og kannski skemmtilegasta tækifærið sem ég hef fengið var að vinna með Marc Jacobs fyrir auglýsingaherferð fyrir nýja ilmvatnið hans, sem fjallar um það hvað það þýðir að vera fullkomin.“

Ilmurinn ber nafnið Perfect Marc Jacobs og kemur út í dag, 30. júlí.

Allt eða ekkert í þessu starfi

„Eitt af því skemmtilegasta við að vinna sem fyrirsæta er að geta ferðast um allan heim, þó að maður sé oftast ekki lengi á hverjum stað,“ segir Ísold. „Eftir að COVID-19 faraldurinn hófst hefur mér líka þótt það mjög áhugavert hvernig það er alltaf hægt að finna nýjar lausnir til þess að skapa.

Ég hef líka lært óskaplega mikið af þessu starfi. Til dæmis að elska sjálfa mig fyrir framan myndavélina en ekki bakvið hana. Áður en ég varð fyrirsæta var ég lengi að reyna að fela mig og líkama minn, þrátt fyrir að allir í kringum mig og ég sjálf vissu að ég væri feit,“ segir Ísold. „Í dag ber ég það með stolti. Ekki fyrir aðra, heldur fyrir sjálfa mig, því þetta er mitt líf og minn líkami.

Það erfiðasta við starf fyrirsætunnar er að þurfa að þola mikla höfnun, segir Ísold. Það er mikil samkeppni um hvert verkefni en það þarf alltaf að henda sér út í djúpu laugina með því að sækjast eftir verkefnunum sem allir hafa áhuga á.

Það erfiðasta við þetta starf er að þurfa mjög oft að vera undirbúin undir höfnun. Það er mjög mikil samkeppni um hvert verkefni og það getur verið erfitt að sætta sig við það að fá ekki þau verkefni sem mann langar í og dreymir um,“ segir Ísold. „Þú þarft alltaf að vera að henda þér út í djúpu laugina með því að sækjast eftir tækifæri sem allir hafa áhuga á. Það er ekki hægt að fela sig eða vera feimin. Það er allt eða ekkert.“

Gefur öðrum hugrekki

Ísold segir að árangurinn sem hún hefur náð hingað til sem fyrirsæta hafi ekki beint komið henni á óvart. „Ég held að innst inni geri ég mér alveg grein fyrir því hvað ég er búin að vinna mikið fyrir stöðu minni í dag sem fyrirsæta, en ég hef líka verið ótrúlega heppin með verkefni og tek því alls ekki sem sjálfsögðum hlut,“ segir hún.

Ísold segist hafa lært mikið af starfinu. Til dæmis það að elska sjálfa sig og hætta að reyna að fela sig. Á myndunum er hún klædd í íslenska hönnun frá Geysi.

Hún veit ekki hvort hún hafi komið öðrum á óvart með árangrinum. „Jú, örugglega svona yfir höfuð. Það finnst ekki öllum raunhæft að sjá manneskju eins og mig njóta velgengi í þessum bransa,“ segir hún. „Þó að ég láti það ekki hafa áhrif á mína reynslu, þá er það að vissu leyti mjög mikilvægt að fólk tali um fjölbreytni og sjái mig bera höfuðið hátt, því þá finnur það hugrekki til að gera það sama.“

Núna er kvikmynd næst á dagskrá hjá Ísold. „Ég er að undirbúa mig fyrir að leika aðahlutverk í kvikmynd sem gerist í Þýskalandi, en annars er ég alltaf að sækjast eftir nýjum tækifærum til þess að breyta heiminum,“ segir hún að lokum.