Söngvarinn Jón Kr. Ólafsson, sem gerði garðinn ekki síst frægan með hljómsveitinni Facon á seinni hluta sjöunda áratugarins, hefur í tvo áratugi rekið tónlistarsafnið Melódíur minninganna á heimili sínu á Bíldudal.

Vænum slatta af safngripum hans hefur verið komið fyrir á Rokksafni Íslands í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ á sérsýningunni Melódíur minninganna & Jón Kr. Ólafsson.

„Þeir komu til mín fjórir strákar frá Hljómahöllinni og tóku hjá mér tvo stóra jeppa fulla af dóti og úr því varð þessi mikla sýning sem byrjar á sunnudaginn,“ segir Jón kampakátur og bætir við að hann eigi þó helling eftir enn þá og að hann vonist til þess að allt safnið hans endi í Hljómahöllinni áður en yfir lýkur.

Framhaldslíf minninganna

„Upphaflega var talað um að lána þetta, sérðu til, en ég er orðinn fullorðinn og ég ætla sko ekki að taka snitti af þessu til baka aftur. Því get ég alveg lofað þér og ég er búinn að segja það við Tómas Young, sem er náttúrlega safnvörður þarna. Það verður bara greiði við mig að fara að létta aðeins á þessu,“ segir Jón sem einnig er mjög áfram um að finna safni sínu annan samastað.

„Þannig að ég viti alveg hvað af þessu verður. Allri þessari vinnu minni sem ég er búinn að leggja á mig því ég er búinn að reka safnið í 20 ár og búinn að koma því öllu upp út á mína eigin buddu.

Það fara ekki allir í skó þeirra sem hafa sungið sig inn í hug og hjörtu þjóðarsálarinnar en það má vel skoða þá hjá Jóni. Mynd/Sólveig M. Jónsdóttir

Ég er að tryggja þessu framhaldslíf þarna og vonandi verður þetta þannig að þetta endar allt í Hljómahöllinni áður en ég verð farinn af sviðinu. Ég er búinn að bjarga ýmsu frá því að fara til heljar í þessu góða þjóðfélagi og þetta hefur ekkert að gera á Bíldudal,“ segir Jón ákveðinn.

Rauður jakki

„Nú til dæmis rauði jakkinn frægi af Hauki Morthens. Já, kallinn minn. Hann er til enn þá,“ svarar Jón að bragði þegar hann er beðinn að nefna einn til tvo safngripi sem honum tókst að bjarga. „Hann fór ekki til heljar en hefði gert það eins og margt annað. Það er ljóst. Þetta væri allt farið í tunnuna fyrir löngu. Ætli það séu síðan til nema tveir eða þrír kjólar af Ellý Vilhjálms og ég er með einn af þeim og þetta er sennilega alflottasti kjóllinn sem til er á landinu í dag,“ segir Jón og staðfestir að báðar þessar tónlistarsögulegu flíkur séu komnar til Reykjanesbæjar.

Undirbúningur sýningarinnar hefur staðið yfir síðan í júní í fyrra og þar gefur að líta fjölmarga muni sem Jón hefur safnað í gegnum tíðina frá eigin tónlistarferli og öðrum tónlistarmönnum. Til dæmis Svavari Gestssyni, Stuðmönnum, Ragga Bjarna og fleirum, að ógleymdum Ellý og Hauki.

Ólýsanlegt safn

„Ég vil endilega láta það koma fram að Tómas Young hringir í mig í vor af því að hann sá viðtal við mig í Fréttablaðinu,“ segir Jón um viðtal vegna 80 ára afmælis hans í ágúst í fyrra og er í það minnsta ein ástæða þess að framkvæmdastjóri Hljómahallarinnar og Rokksafns Íslands hafði samband við hann. Með þeirri niðurstöðu að þegar eru tveir jeppar drekkhlaðnir minningum farnir frá Bíldudal og meira mun fylgja í kjölfarið.

Verið velkomin á opnun sýningarinnar Melódíur minninganna og Jón Kr. Ólafsson þann 7. mars kl. 15:00.

Posted by Rokksafn Íslands - The Icelandic Museum of Rock 'n' Roll on Wednesday, 17 February 2021

„Ég sagði við hann: „Það er ekki hægt að lýsa þessu í gegnum síma. Það gerir ekki nokkur maður. Þú verður bara að koma vestur, kallinn minn, og sjá þetta.“ Og hann bara dreif sig upp í flugvél í ágúst í sumar og skoðaði þetta.“

Gestum Hljómahallarinnar gefst einnig tækifæri til að skoða sýninguna á Bíldudal með gagnvirkum sýndarveruleikagleraugum sem gera kleift að ganga um tónlistarsafnið sem myndað var sérstaklega fyrir sýninguna.

„Ég ákvað að hætta í vor. Ég varð áttræður í ágúst og ég er búinn að skila 60 árum. Ég er búinn að syngja í 60 ár. Það er sæmilega góður tími og nú er ég frjáls. Alveg frjáls,“ segir Jón og vísar til lagsins Ég er frjáls sem hann gerði landsfrægt með hljómsveitinni Facon og Svavar Gests gaf út á 45 snúninga hljómplötu árið 1969.