„Nafnið helgast kannski af því að ég hef ekki lokið mikilli formlegri menntun. Ég lauk reyndar stúdentsprófi frá MR, en fólk er alltaf að segja mér að BA-gráða sé nýja stúdentsprófið. Þannig að ég hlýt bara að vera grunnskólagenginn. Ég botna ekki alveg í þessu. Ég hef hingað til lært mest í skóla lífsins,“ segir uppistandsgrínarinn Jakob Birgisson, um hugmyndafræðilegan bakgrunn nýju sýningarinnar sinnar, Skóla lífsins.

Jakob, sem er 24 ára, kom tvítugur fram á sjónarsviðið með frumraun sína, Meistara Jakob, og hlaut mikið lof fyrir. Þá sagðist sjálfur Ari Eldjárn meðal annars aldrei hafa „séð annað eins talent“ og Jakob hefur allar götur síðan starfað sem uppistandari, auk þess að fást við ýmis skrif. Hann var meðal annars í teyminu sem skrifaði Áramóta­skaupið 2019.

Prófessor við Skóla lífsins

Jakob kvæntist Sólveigu Einarsdóttur, hagfræðingi, í sumar og saman eiga þau tveggja ára dóttur, Herdísi. Hann segist þannig lifa lífinu hraðar en margir í kringum sig, en það geri hann af mjög ásettu ráði.

„Ég gæti auðvitað ekki ímyndað mér betri eiginkonu og barnsmóður en Sólveigu. Og ég held reyndar að vinir mínir séu sammála,“ segir Jakob og bætir við hlæjandi:

„Svona miðað við ræður vina minna í brúðkaupinu. Þær fjölluðu flestar um hve fegnir þeir væru að ég hringdi ekki lengur í þá seint á kvöldin til þess að leysa úr ýmsum andlegum flækjum. Sólveig hefði tekið við hlutverki sáluhjálparans.“

Hann segir ýmsar hugmyndir hafa kviknað fljótlega eftir brúðkaupið og þótt viðfangsefni sýningarinnar séu auðvitað mikið til almennt dægurþras, komi fjölskyldulífið þar við sögu.

„Bara að vera giftur með barn og að sjá um heimili. Það er ákveðinn skóli og ég fer vafalaust að verða prófessor í því. Prófessor við Skóla lífsins.“

Spenntur fyrir Binna Glee

Hefðbundið uppistand er grunnurinn að grínferli Jakobs en hann nýtir sér einnig að hann er liðtæk og lunkin eftirherma og leggur mikið upp úr því að herma vel eftir viðfangsefnum sínum.

„Ég reyni alltaf að kynna nýja eftirhermu til leiks þegar ég held svona nýtt uppistand. Ég hef til dæmis verið að leika Jón Ársæl, Magnús Hlyn, Gumma Ben. og Guðna Th. og nú hefur Binni Glee bæst við, sem ég er mjög spenntur fyrir.“

Fréttablaðið/Anton Brink

Binni er vitaskuld einn þekktasti áhrifavaldur landsins og hefur notið mikilla vinsælda, ekki síst með raunverleikaþáttunum Æði sem hafa fangað athygli Jakobs, rétt eins og fjölmargra annarra.

„Ég er mikill aðdáandi Æði-strákanna og Binni Glee er í sérstöku uppáhaldi. Það er eiginlega bara allt við hann; einlægnin, málrómurinn, skoðanir hans. En ég ætla ekki að gefa of mikið upp. Þetta er einn af þessum bröndurum sem þú verður bara að sjá.“

Má ekkert lengur

Umræðan um hvað megi og hvað megi ekki segja í uppistandi blossar reglulega upp hér eins og annars staðar og oftar en ekki er kveikjan eitthvað sem einhver grínari vestanhafs hefur látið falla í grýttan en um leið viðkvæman jarðveg. Nærtækt dæmi er uppistand Dave Chappelle þar sem hann þótti tala óvarlega um transfólk.

Jakob segist lítið láta þessar sveiflur í gríni á heimsvísu trufla sig þegar hann er spurður hvort eitthvað sé honum óviðkomandi eða hvort hann forðist að tala um einhver ákveðin mál.

„Ég hef aldrei fundið fyrir neinni pressu um hvað ég megi segja og hvað ekki. Ég sé á umræðunni að þetta er frekar tvískipt. Sumir halda að uppistand eigi að vera eins og einhver útvatnaður markþjálfafyrirlestur. Slíkt er auðvitað ferlega leiðinlegt, en aðrir telja að ekkert megi segja lengur.

Ég er ósammála hvoru tveggja. Það er skemmtilegt að spyrja sig spurninga og reyna að svara þeim í uppistandi og það má nokkurn veginn segja hvað sem er. Svo dæmir uppistand sem er ekkert annað en fúkyrði og mannhatur sig sjálft.“

Ævafornt listform

„Uppistand er nokkuð heilagt form fyrir mér. Þetta er ævafornt listform sem hefur einhvern veginn lifað af. Ég hef ekki miklar áhyggjur af pólitískum rétttrúnaði. Ég sleppi ekki að segja eitthvað bara af því ég er hræddur um að einhver reiðist,“ segir Jakob og bendir á að hann sé almennt ekki mjög líklegur til þess að reita fólk til reiði.

„Annars er ég svo ljúfur, að ég veit eiginlega ekki alveg hvern ég ætti að reita til reiði,“ segir Jakob, glottir og bætir við: „Jú, kannski fjölskylduna mína.“

En hann hefur oft nýtt foreldra sína og systkini sem efnivið á sviði og segir þau hafa tekið því ágætlega.

„Það væri vafalaust efni í annað viðtal. Að ræða við þau, sem sagt,“ flissar Jakob. „Annars held ég að þau séu ánægð í meginatriðum. Ég hef getað lifað á þessu og flutt að heiman. Það er bót í máli fyrir þau, semsagt að losna við mig. En ég á tengdafjölskylduna eftir. Ætli þau verði ekki fyrir barðinu á mér núna,“ segir Jakob og glottir nógu óræður til þess að ómögulegt er að ráða í hvort honum er alvara.