Hvað einkennir stíl búlgarskra kvenna?

Það er glæsilegur fatnaður, mikið af hátískumerkjavöru, háir hælar og stígvél, fallegar töskur, skart og feldir, og allt er mjög kvenlegt.

Hver er þinn eftirlætis hönnuður í Búlgaríu?

Ég sæki í að sjá alla stórkostlegu búlgörsku kjólahönnuðina á tískuvikunni hér. Maður dettur algjörlega inn í draumaheim þegar maður horfir á þau meistaraverk. Svo ég nefni búlgörsk nöfn má nefna Stoian Radichev, Hristo Chuchev og Sofiu Borisova, en það er ótúlega mikið af klárum hönnuðum hér.

Hvað er Búlgaría þekktust fyrir þegar kemur að tísku?

Glæsilega kjóla á rauða dregilinn, galakjóla, brúðarkjóla og svakalega klára kjólahönnuði. Einnig glæsilega klæddar konur í mjög háum hælum.

Himinháir hælar er eitt af því sem búlgarskar konur klæðast dagsdaglega, og við þá fallegar töskur og skart.

Kaupir þú þér búlgarskan tískuvarning og hvað keyptirðu þér síðast?

Já, mér finnst alltaf gaman að kaupa eitthvað búlgarskt til að styrkja þessa duglegu hönnuði. Ég hef verið mjög slöpp í fatakaupum 2020, enda ekki mörg tækifæri til að skarta glæsilegu dressi í kófinu. Ég keypti mér þó dress frá illumminee.com á dögunum, sem er skemmtileg búlgörsk hönnun.

Eru búlgarskar konur tískumeðvitaðar og vel til hafðar yfirhöfuð?

Já, mjög, þær eru alveg stórglæsilegar. Maður verður þó var við kynslóðaskipti. Konur um og yfir 50 ára lifa ekki né hrærast eins mikið í tískuheiminum og þær yngri; þær hafa minni auraráð og voru aldar upp á árum kommúnismans þegar lífsbaráttan var erfiðari. En eins og við vitum er mjög dýrt að klæða sig vel! Nýir Nike-skór kosta hálfan handlegginn og hvað þá 66°Norður úlpa, sem allir á Íslandi vilja.

Ásdís Rán kaupir sér gjarnan búlgarska hönnun og nú síðast af Illumminee.

Eru Búlgarar á eftir eða á undan Íslendingum þegar kemur að tískunni?

Þeir eru töluvert á undan Íslandi, en Ísland er nú ekki komið mjög langt á tískukortunum, að mínu mati. Þó svo að til séu margir flottir og hæfileikaríkir íslenskir hönnuðir eru bara örfá ár síðan alþjóðleg tískumerki og -keðjur komu til Íslands og fyrir þann tíma var nú lítið í boði fyrir utan 17 og nokkrar íslenskar tuskubúðir sem stýrðu því sem var í tísku á landinu síðustu tugi ára.

Á Íslandi eru enn ófáanlegar vörur frá hátískuhönnuðum sem stjórna tískuheiminum, fyrir utan kannski nokkur stykki hér og þar í örfáum búðum, og þá er ég að tala um heimsklassa hönnuði og tískumerki eins og Gucci, Louis Vuitton, Armani, Chanel, Versace, Donna Karan, Dior, Guess, Vivian Westwood, Dolce & Gabbana, Fendi, Prada, Balmain, Kenzo, Burberry, Givenchy og get talið endalaust upp. Svo er líka mikið af nýjum og nýfrægum merkjum sem eru geggjuð og poppa nú upp um allan heim. Þekktustu keðjurnar í ódýrari kantinum, og sem hafa nokkrar poppað upp á Íslandi undanfarin ár, eru til dæmis Zara, New Yorker, Mango og H&M, en það er bara smábrot af því sem er til í öðrum löndum þótt þetta sé að þróast heilmikið og vonandi bætast miklu fleiri merki við næstu árin.

Hvar kaupirðu þín föt og fylgihluti?

Undafarin tuttugu ár hef ég að mestu keypt fatnað utan landsteinanna. Ég á persónulega mjög erfitt með að finna á mig föt á Íslandi; það er allt svo vítt og stórt og mikið til sami stíll í öllum búðum, sem er of þungur fyrir mig. Ég verslaði mikið í Karen Millen áður en þeirri búð var lokað heima á Íslandi en þar fékkst flottur og kvenlegur klæðnaður.

Ásdís Rán nýtur þess að versla í litlum boutique og hönnunarbúðum í höfuðborginni Sófíu.

Áttu þér uppáhalds búð í höfuðborginni Sófíu?

Það eru svo margar búðir og Kringlur hér í Sófíu að það er erfitt að velja sínar uppáhalds. Ég vil heldur ekki að nafn á búð ákvarði minn stíl; mér finnst gaman að versla úti um allt og púsla saman, og svo er æðislega gaman að fara í litlar „boutique“- og hönnunarbúðir sem eru gjarnan rétt við helstu verslunargöturnar. Þar finnur maður oft hina glæsilegustu fjársjóði.

Hver er helsti tískuáhrifavaldurinn í Búlgaríu?

Ég hreinlega veit það ekki, þær eru svo margar og skipta eflaust þúsundum þessar tískustjörnur sem eru mjög vinsælar hér í landi, en ég man bara ekki hvað heita. Ég er lítið að pæla í hverju aðrir klæðast, ég hef alltaf haft minn eigin stíl og klæðist því sem mér finnst fallegt og fer mér vel, burt séð frá tískustraumum. Það gæti verið flík fyrir 3.000 krónur eða 100 þúsund krónur.

Ásdís Rás kaupir flest sín föt í útlöndum enda segist hún ekki finna margt sem hentar henni heima á Íslandi.

Hefur þú tileinkað þér eitthvað frá Búlgaríu þegar kemur að útliti og stíl?

Ég hef alltaf fittað frekar vel inn hér í Búlgaríu þar sem stíllinn minn er bæði glyskenndur og kvenlegur. Því má segja að ég sé frekar undir áhrifum frá Balkanlöndunum og Rússlandi, frekar en Norðurlöndunum.

Hvað hefur Búlgaría kennt þér í sambandi við tísku og útlit?

Að njóta þess að klæða mig upp á oftar! Það er mikið um það hér að konur klæði sig upp á, fari í fallega kjóla, háa hæla og allan pakkann til að undirstrika kvenleika sinn.

Hvernig leikur lífið annars við þig í Sófíu þessa dagana?

Hér líður mér vel, borgin er skemmtileg og landið indælt. Ég nýt lífsins og er laus og liðug.