Stephen Sondheim, sem lést á dögunum, samdi textana. Dans- og söngvamyndir, sem voru allsráðandi í Hollywood um miðja síðustu öld, eru sjaldséðir fuglar núorðið. Steven Spielberg hafði þó lengi dreymt um að gera slíka mynd og um jólin verður frumsýnd hans gerð af West Side Story, sem byggð er á leikriti Shakespeares um Rómeó og Júlíu. Meðlimir Akademíunnar, sem velja myndir til Óskarsverðlauna, fengu þó forskot á sæluna á forsýningu nú í vikunni. Skemmst er frá því að segja að fólk virðist ekki halda vatni af hrifningu yfir nýju myndinni.

Handritið fær mikið lof og sagt er að nálgun myndarinnar komi skemmtilega á óvart. Þá þykir útfærsla dansa vera nýstárleg og spennandi. Í tístum og stöðufærslum á samfélagsmiðlum kalla meðlimir Akademíunnar eftir því að mynd Spielbergs, sem einhverjir kalla ástaróð til New York-borgar, fái tíu Óskarsverðlaun eins og fyrri myndin gerði fyrir 60 árum.

Margir fullyrða að þetta sé besta mynd Stevens Spielberg frá upphafi og er þá ekki lítið sagt. West Side Story, Rómeo og Júlía, verður aldrei gömul og þetta er mynd sem enginn kvikmyndaunnandi eða raunar enginn listunnandi má láta fram hjá sér fara.

Ekki ætluð yngri en 12 ára

Sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll Kringlunni, Akureyri, Keflavík, Smárabíó og Háskólabíó.

Frumsýnd 26. desember 2021

Aðalhlutverk:
Ansel Elgort, Rachel Zegler,
Ariana DeBose, David Alvares
og Rita Moreno.

Handritshöfundur:
Tony Kushner.

Danshöfundur:
Justin Peck.

Leikstjóri:
Steven Spielberg