Meiri­hluti lands­manna mun halda upp á jólin í ár með gervi­tré á heimilum sínum. 56% Ís­lendinga munu setja upp gervi­tré en 27% lifandi tré á meðan 17% hyggjast ekki setja upp neitt jóla­tré í ár. Fjöldi jóla­tjá­a­lausra heimila hefur nær tvö­faldast á þessum ára­tug.

Þetta kemur fram í niður­stöðum könnunar MMR en rúm­lega þúsund ein­staklingar svöruðu henni. Hlut­fall þeirra sem setja upp gervi­tré hefur aukist um 6 prósentu­stig frá upp­hafi mælinga MMR sem hófust árið 2010. Á meðan hefur hlut­fall hinna sem setja upp lifandi jóla­tré minnkað um 15 prósentu­stig og mældist nú, eins og fyrr segir, 27%.

Þróunin er at­hyglis­verð í ljósi þess að ís­lensk lifandi jóla­tré eru talin um­hverfis­vænasti kosturinn því fyrir hvert tré sem er höggvið til sölu gróður­setur Skóg­ræktar­fé­lag Ís­lands 40 til 50 tré í staðin.

Ungt fólk í Reykjavík heldur í hefðirnar

Ungt fólk virðist lík­legra til að setja upp lifandi jóla­tré en aðrir. 31% á aldrinum 18-29 ára munu setja upp lifandi tré en hlut­fallið lækkar með auknum aldri. Konur eru svo lík­legri en karlar til að setja upp gervi­tré og reyndust karlarnir mun lík­legri en konur til að sleppa því að setja upp jóla­tré þetta árið.

Fram­sóknar­menn og mið­flokks­menn eru lík­legastir til að nota gervi­tré: 65% fram­sóknar­manna og 59% mið­flokks­manna setja slíkt upp í ár. Á móti reyndust fylgis­menn Við­reisnar lík­legast til að setja upp lifandi tré, um 41%, og fylgdu sam­fylkingar­menn og vinstri-grænir fast á eftir. Píratar eru þá lík­legri en fylgis­menn annarra flokka til að setja ekki upp jóla­tré.

Lands­byggðar­búar reyndust þá lík­legri en höfuð­borgar­búar til að vera með gervi­tré á sínum heimilum og í­búar á höfuð­borgar­svæðinu reyndust hins vegar lík­legri til að vera ekki með jóla­tré.