Hljómsveitin er sett saman af Gústa, söngvara og lagasmið hljómsveitarinnar, ekki ósvipað því þegar Sly Stone setti saman hóp af gömlum en grjóthörðum kempum í myndinni The Expendables. Allir tilbúnir að deyja fyrir málstaðinn,“ segir Frosti Jón Runólfsson, trommari Horrible Youth, um tilurð hljómsveitarinnar.

Nýstárleg upptökutækni

Frosti, sem kenndur er við Gringo, er eftirsóttur trommari sem einnig hefur verið með puttana í kvikmyndagerð og er að auki heilt yfir listunnandi af guðs náð. Hann segir að Gústi, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar, hafi komið færandi hendi heim eftir Noregsdvöl. Sú afdrifaríka heimkoma hafi raunar markað upphaf nýju plötunnar.

„Gústi bjó í Noregi og átti bunka af lögum sem hann langaði að koma frá sér og hann hóaði í okkur hvern á fætur öðrum til að blása lífi í þennan grip sem nýja platan okkar er. Það er engin tilviljun að nú er hann kominn heim til Íslands.“ Frosti segir að Gústi hafi ekki getað staðist það að deila nýsköpuðum hugarfóstrunum með hljómsveitarmeðlimunum. „Hann gat ekki haldið sig fjarri eftir að hann heyrði lögin sín fæðast.

„Þessi lög eru búin að fylgja Gústa í þó nokkurn tíma. Upptökuferlið var ekki hefðbundið. Ég þekkti lögin ekki neitt áður en ég trommaði þetta.“ Þessu óvenjulega fyrirkomulagi hafi fylgt bæði kostir og gallar. „Gústi sendi gítar-riff til Íslands frá Noregi og heimtaði úrlausnir, sem var bæði gott og slæmt. Slæmt á þann veg að ég fann fyrir pressu á að standa mig því þetta voru jú hans börn en gott á þann veg að hann var fastur í Noregi og gat því ekki staðið á kantinum með svipu á meðan ég trommaði af mér allt vit.“

Þá hafi svar Frosta við beiðni Gústa um að taka að sér sönginn á plötunni haft í för með sér ákveðnar afleiðingar. „Gústi bað mig líka um að syngja lögin en ég gerði það ekki. Eftir á að hyggja þá hefði ég samt átt að gera það því Gústi tók að sér sönginn og nú erum við sennilega fastir með hann á míkrafóninum í einhvern tíma,“ segir Frosti glettinn.

Fagmenn fram í fingurgóma

Óhætt er að fullyrða að allir meðlimir sveitarinnar séu miklir reynsluboltar. „Helgi Rúnar, sem er í Benny Crespos Gang, og Hálfdán, sem er í Kul, dúndruðu sínum töfrum inn á lögin og þetta kom allt heim og saman,“ segir Frosti en hann hefur sjálfur trommað með hljómsveitum á borð við Gaur, Klink, Moji and the Midnight sons, The Brian Jonestown Massacre, Legend og fleirum.

„Hann Magnús Leifur Sveinsson (Úlpa) sá svo um að taka lögin upp og gefa þeim góðan hljóm. Við áttum nokkrar góðar stundir í stúdíóinu, ég held að ég hafi ekki sofið í þrjá eða fjóra daga þegar við tókum upp trommurnar.“ Þetta hafi reynst krefjandi tímabil fyrir Magnús en hafi þegar uppi var staðið verið vel þess virði. „Magnús svaf sennilega ekki allan tímann sem tók að setja saman plötuna. Það voru einhverjar vikur. En við erum allir mjög ánægðir með þessa frumraun okkar.“

Ævaforn og dýrmæt vinátta

Frosti segir að hægt sé að nálgast Wounds Bleed bæði í raunheimum og á netinu. „Platan var gefin út á CD af því við erum 90’s gengi og verðum það að eilífu! Svo er platan að sjálfsögðu á Spotify og öllu því drasli. En ég mæli með ferð í Lucky Records og að fólk grípi með sér eintak áður en þetta selst upp. Við verðum einnig með varning til sölu á tónleikunum svo að þú getur reddað jólunum með því að mæta á þetta rokksjóv.“

Þá er ekki er langt síðan Óværa gaf út plötuna Perdido En Islandia sem einnig er hægt að nálgast á Spotify. Athygli vekur að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessar tvær hljómsveitir koma saman. „Við erum allir gamlir félagar og höfum gengið þessa rokkbraut saman frá unglingsaldri. Bjór, sviti og tár – og fullt af blóði,“ segir Frosti um ástæðurnar að baki þessari innilegu vináttu. „Ég var í hljómsveitinni Klink með Guðna og Árna sem spila saman í Óværu og við spændum af okkur barnskóna saman í rokkinu.“

Þessi nánd, ásamt smæð senunnar hér á landi, geri það að verkum að meðlimir sveitanna eru eins og fjölskylda, þótt kyndug sé. „Þessi rokksena á Íslandi er svo lítil að það þekkjast allir meira eða minna, en þessi hópur sem spilar saman á Gauknum núna á laugardag er fjölskylda. Meiri Manson-fjölskylda en þessi hefðbundna, en fjölskylda samt sem áður.“

Tónleikarnir eru í kvöld á Gauknum og húsið er opnað klukkan 21.Hemúllinn hitar upp. Miða er hægt að nálgast á tix.‌is á 1.500 kr. eða á 2.000 kr. við inngang.