Nína Dögg Filippusdóttir leikkona fer með lítið hlutverk í fjórðu og síðustu þáttaröðinni um norsku auðmennina í Exit. Nína leikur viðburðaskipuleggjanda í þáttunum og var við tökur í viku á Spáni.
„Þetta er smáhlutverk. Það var gaman að fá að vera með. Karakterinn sem ég leik sér um að skipuleggja gleðiselskap, er partíplanari og heldur framvindunni gangandi,“ segir Nína og að hún sé ekki eini íslenski leikarinn því Björn Hlynur Haraldsson fari líka með lítið hlutverk. Gísli Örn Garðarsson, eiginmaður hennar, leikstýrir tveimur þáttum í seríunni, þeim sem Nína leikur í, en hægt er að horfa á hana alla í sjónvarpsveitu RÚV.
„Það var ótrúlega skemmtilegt og spennandi að kynnast þessum strákum og öllum þessum leikurum. Maður er búinn að fylgjast með öllum seríunum og það var alveg smá súrrealískt að vera allt í einu með þeim í partíi,“ segir Nína létt.
Spurð um norska bransann og hvort hann sé mjög ólíkur þeim íslenska segist hún ekki hafa fundið fyrir því. Það hafi komið saman hópur þarna sem hafi unnið að sameininlegu markmiði og gert það vel.

„Það voru stórar og mannmargar senur. Mikið af fólki og mikið að gerast. Það var mikið verið að vinna með nekt og alls konar svoleiðis sem var gert á ótrúlega faglegan hátt og manni leið aldrei illa eða þannig að maður væri staddur í röngum bransa.“
Hún segir að þó svo að þættirnir fjalli um menn sem misnota kókaín og konur þá sé einnig verið að skoða stærri samfélagsleg mál sem komi til dæmis okkur Íslendingum sannarlega við.
„Þetta fjallar um vindorkuna og það er ótrúlega áhugavert það sem er að gerast í þeim málum og alveg viðfangsefni fyrir okkur Íslendinga, hvort við eigum að beisla hana og hvernig á að deila henni og svo framvegis,“ segir Nína og heldur áfram:
„Það er fullt af alvöru spurningum í þáttunum sem skipta máli, fyrir Ísland. Þótt þetta gerist í Noregi þá er hægt að heimfæra það á okkar veruleika. Þetta er ekki bara kókaín og kellingar,“ segir hún og hlær.