Heilmikill hasar hefur verið í Facebook-hópnum Brask og brall síðustu klukkustundina eftir að ung kona, Mekkín Dan, upplýsti að hún sæti í bíl sínum, umkringd lögreglumönnum sem virtust ætla að brjóta sér leið inn í ökutækið.

„Löggan hefur engan rétt á að leita í bílnum mínum. Hefur hún þá rétt á að draga bílinn í burtu með mig í honum?“ spurði Mekkín á Facebook-síðunni og ekki stóð á ráðleggingum félaga í hópnum

Meðal þessa sem Mekkín fékk að lesa á Facebook á meðan í meintu umsátri stóð var:

„Ef þú ert á sakaskrá eru þeir að fara fá heimild. Svo þú getur setið þarna eins lengi og þú vilt... Its gonna happen.“

„Opnaðu bara bílinn! Ef þú hefur ekkert að fela væri það í góðu lagi fyrir þá að leita.“

„Opnaðu bara helvítis bílinn. Löggan hefur nóg annað að gera en að sinna svona bulli.“

„Ef þú neitar leit, þá má lögreglan halda þér og bílnum þínum, þangað til að dómari hefur veitt heimild. Eða þú getur veitt leyfið sjálf. Svo spurningin er aðallega bara, hversu mikið þarftu að brasa í dag, svo hversu lengi ertu til í að hanga þarna eða viltu fá að losna fljótlega.“

„Því mega þeir ekki kíkja í bílinn...ertu að fela ehv...?“

Nokkrir ráðleggja Mekkín að sitja sem fastast en hringja í snatri í lögmann. Þá er henni bent á að lögreglan hafi oftar en ekki heimild til þess að ganga vasklega fram í aðstæðum sem þessum:

„Ef hún hefur rökstuddan grun þá má hún það. Annars þá reyna þeir alltaf að komast upp með að gera það án rökstudds gruns eða leitarheimildar. Líka þessi setning „ef þú hefur ekkert að fela þá bara leyfa þeim að leita“ er svo mikið bullshit. Þó ég hafi ekkert ólöglegt í bílnum/heimilinu mínu þá er þetta samt töf á mínum degi.“

Þá er henni vísað á tengil á bloggið Justice League, hóp laganema sem „fjallar um lagaleg álitaefni, lögfræði, lögfræðinámið og aðra stórskemmtilega hluti.“ Þar sem tilfærð lagagrein sem á við þessar aðstæður:

Heimilt er að leita í húsum sakbornings, geymslustöðum, hirslum, skipum og öðrum farartækjum í því skyni að handtaka hann, rannsaka ummerki brots eða hafa uppi á munum eða gögnum sem hald skal leggja á.

Leita má hjá öðrum mönnum en sökuðum þegar brot hefur verið framið þar eða sakaður maður handtekinn. Einnig ef gildar ástæður eru til að ætla að sakborningur haldi sig þar eða þar sé að finna muni eða gögn sem hald skal leggja á.

Miklar áhyggjur af hundi

Öll hefur þessi atburðarás verið í miklum véfréttastíl og Fréttablaðið hefur hvorki náð sambandi við Mekkín né lögreglu til þess að fá staðfest að konan hafi verið handtekinn eins og haldið er fram í einni athugasemdanna við stöðuuppfærsluna.

„Það er búið að taka hana þeir brutu rúðuna og settu hana í járn og inn í bíl, hún var ekki að keyra. Ökumaðurinn var strax tekinn og hún neitaði síðan að fara úr bílnum.“

Mekkín lét þess getið að hundurinn hennar væri með henni í bílnum og hún virtist ekki síst hafa áhyggjur af velferð dýrsins færi svo að lögreglan bryti sér leið inn í bílinn.

„Var hún ekki með hund líka?“

„Jú miðað við það sem hún sagði hérna uppi.“

„Æ, hvað ætli hafi orðið um hann.“

„Jú og samkvæmt henni ætluðu þeir að brjóta rúðuna með honum...“

„Þeir koma hundinn fyrir. Þeir skilja hann ekki bara eftir.“

„Hafa þeir ekki bara tekið hann? Fóru nú aldrei að skilja hann eftir.“

„Já hún orðaði það þannig að þeir ætluðu að brjóta rúðuna með honum. Já ég veit, fannst þetta svo skemmtilega orðað. Búinn að lesa hverja einustu færslu og hafði gaman af.“