Elvar Páll Sigurðsson og unnusta hans, Eyrún Rakel Agnarsdóttir, hafa í nógu að snúast þessa dagana. Þau eignuðust sitt fyrsta barn á dögunum og síðustu vikur hafa snúist um soninn sem er nú um sex vikna gamall.

„Hann er algjör gullmoli og það gengur allt vel. Heilsan er góð og fæðingin gekk vel,“ segir Elvar Páll og segir fæðingu drengsins hafa verið sína stærstu stund.

Elvar Páll hefur raunhæfan möguleika á því að verða yngsti bæjarstjórnarmaður svo lengi sem elstu menn muna. Hann starfar nú á auglýsingastofunni Pipar/TBWA og spilar fótbolta með Leikni í Breiðholtinu.

„Ég ráðlegg fyrirtækjum í hinum stafræna heimi um markaðssetningu og stefnumótun á stafrænum miðlum,“ segir Elvar sem segir umhverfið sem hann vinnur í síbreytilegt. „Það er alltaf eitthvað að bætast við í flórunni og því getur stefnumótun og markaðssetning oft verið mjög krefjandi, en það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera sýnileg á réttan hátt á netmiðlum,“ segir Elvar um starf sitt.

Elvar Páll er sóknarmaður Leiknis­manna í Breiðholti en sleit takkaskónum á barnsárunum með Breiðabliki í Kópavogi þar sem hann er fæddur, uppalinn og býr enn. Hann gekki svo til liðs við Leikni Reykjavík árið 2015. „Ég fór til Bandaríkjanna beint eftir framhaldsskóla á fótboltastyrk. Þar lærði ég líffræði,“ segir Elvar frá og segist hafa fetað í fótspor eldri bróður síns. „Bróðir minn lærði líka líffræði og seinna læknisfræði, ég ætlaði að feta sömu leið og hann.“

Elvar Páll kom heim og fann fljótlega hvað hann vildi gera í framhaldinu. „Ég vildi fara í aðra átt og fór því í meistaranám í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum í Háskóla Íslands og sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Líffræðinámið kemur þó að góðu gagni, það er gott að byggja grunninn á vísindum og gerir það að verkum að ég nálgast oft verkefni á annan hátt en aðrir á mínum starfsvettvangi”.

Elvar Páll ökklabrotnaði síðasta sumar og hefur því verið frá fótbolta í nokkurn tíma.

„Ég er enn ekki orðinn nógu góður og er í endurhæfingu. Þetta tekur tíma, þetta eru erfið meiðsli og getur tekið langan tíma að jafna sig á svona meiðslum, það reynir nefnilega verulega á ökklann í fótbolta og maður þarf því að vera rúmlega 100 prósent góður í ökklanum áður en maður getur farið aftur út á fótboltavöllinn.

Ég er alls ekki hættur í fótbolta en í þessum meiðslum fór ég aðeins að hugsa út fyrir boxið og fór að gera hluti sem mig hafði alltaf langað til að gera,“ segir Elvar Páll og segist í kjölfarið hafa leitt hugann að því að verða að gagni fyrir sinn heimabæ, Kópavog.

„Ég hef svo sem aldrei verið mjög pólitískur en ég hef alla tíð haft mikinn áhuga og fylgst með því sem er í gangi í Kópavogi. Ég hef búið hér frá fæðingu og fjölskyldan mín býr hér mestöll. Mér þykir mjög vænt um bæjarfélagið og vil því ólmur leggja mitt af mörkum og gera gagn.

Ég flokka mig ekki sem hægri- eða vinstrimann og vil miklu frekar vinna eftir málefnum hverju sinni. Þannig vil ég nálgast þetta og ég tel að það sé besta leiðin til að gera Kópavog betri og samkeppnishæfari á öllum sviðum.

Í síðustu kosningum beið ég sjálfur eftir ungri manneskju í framboði sem ég gæti tengt sterkt við. Manneskju sem færi í stjórnmálastarf í bænum með það markmið að gera vel fyrir ungt folk, en fann enga. Það sem hefur að mínu mati sárvantað er að innan bæjarstjórnar sé einhver sem talar máli ungs fólks. Ef slík manneskja velst ekki til starfa, þá verða málefnin hreinlega undir að mínu mati,“ segir Elvar Páll og bendir á að eftir því sem hann best viti, þá hafi enginn undir þrítugu starfað í bæjarstjórn Kópavogs í langa tíð.


„Meðalaldurinn í bæjarstjórn síðastliðin kjörtímabil hefur verið um 50 ár. Mér finnst sú staðreynd endurspeglast að mörgu leyti í stefnu bæjarins í ýmsum málum.

Mér finnst til dæmis vanta að lögð sé meiri áhersla á að byggja húsnæði með ungt fólk í huga. Allar lóðir bæjarins á síðasta kjörtímabili voru til dæmis boðnar út til hæstbjóðenda og það leiðir af sér hærra íbúðarverð og þannig er ekki byggt fyrir nægilega fjölbreyttan hóp, heldur meira fyrir hina tekjuhærri. Það hafa sömuleiðis ekki verið byggðar íbúðir fyrir námsmenn. Á Kársnesinu hefði til dæmis verið tilvalið að byggja fyrir þann hóp,“ segir Elvar Páll.

„Nú er á stefnuskránni að byggja brú yfir til Reykjavíkur og það hefði verið kjörið að byggja íbúðir ætlaðar nemendum þar,“ segir hann til að taka dæmi um tækifæri sem farið hefur forgörðum að hans mati.

Hann segir föðurhlutverkið einnig hafa áhrif á sýn sína. „Við sóttum um hjá dagmömmu fyrir strákinn okkar hálfu ári áður en hann fæddist, mér finnst það ekki í lagi. Það þarf að aðstoða foreldra með ung börn betur og svo þarf nauðsynlega að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskólans. Þá eru íþróttamál bæjarins mér auðvitað mjög hugleikin, en íþróttir skipa stóran sess í lífi mínu,“ segir Elvar Páll spurður um helstu málefni sem brenna á honum.