Lögfræðteymi Meghan Markle hefur svarað ásökunum hálfsystur Meghans, sem krefst 75.000 dollara í skaðabætur frá hertogynjunni vegna meiðyrða.
Samantha Markle ásakar hálfsystur sína um ærumeiðandi ummæli þegar Meghan sagði hún væri einkabarn og um hvenær þær systur hittust síðast, en með því telur Samantha að hálfsystir sín sé að halda því fram að þær hafi aldrei þekkt hvor aðra og að Samantha sé því að selja lygasögur til fjölmiðla um samband þeirra.
Einnig ásakar hún hálfsystur sína um ærumeiðandi ummæli í garð föður þeirra, Thomas Markle en samband hans og Meghan hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár. Þá telur hún einnig að Meghan hafi birt og dreift lygum um hana í bókinni „Finding Freedom“ sem var gefin út árið 2020.
Lögfræðiteymi Meghan hefur nú svarað þessum ásökunum og telur að ummælin hafi ekki verið sett fram sem staðreynd, heldur hafi þetta verið huglæg fullyrðing um æsku Meghan.
„Það er erfitt að ímynda sér persónulegri hlut en hvernig einstaklingur upplifði æsku sína,“ kemur meðal annars fram í dómskjölum í málinu.
Lögfræðiteymið reynir nú að fá málinu vísað frá dómstólum í Flórída.