Meg­han Mark­le, her­toga­ynjan af Sus­sex, hringdi í bresku þing­konuna Holly Lynch og þakkaði henni og fleirum fyrir þátt sinn í opnu bréfi þar sem með­ferð breskra götu­blaða á her­toga­ynjunni var for­dæmd. CNN greinir frá en sjá má við­tal við Holly neðst í fréttinni.

Meira en sjö­tíu þing­konur af öllu pólitíska lit­rófinu rituðu nafn sitt undir opið bréf. Þar var stuðningi lýst yfir við her­toga­ynjuna fyrir að „standa í fæturnar“ gegn því sem er lýst sem oft á tíðum ó­geð­felldum frétta­flutningi breskra götu­blaða. Það er óhætt að segja að bresku götublöðin hafi verið dugleg við að gera sér mat úr flestu því sem Meghan hefur tekið upp á síðustu mánuði.

Holly Lynch lýsir því í sam­tali við ITV hér að neðan að hún hafi fengið sím­hringingu frá her­toga­ynjunni í dag. „Það var Bucking­ham höll sem spurði hvort ég hefði tíma til að tala við her­toga­ynjuna af Sus­sex,“ segir Lynch.

„Hún var að hringja til að þakka mér og öðrum þing­konum fyrir að standa með henni. Þrátt fyrir að við séum í mis­munandi hlut­verkum, að þá stöndum við með henni og segjum að við ættum ekki að vera að rífa niður konur á opin­berum vett­vangi í gegnum fjöl­miðla eða með öðrum hætti,“ segir hún.