Hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, íhuga að flytja vistarverur sínar til Bandaríkjanna, að sögn breskra fjölmiðla. Hjónin hafa skipulagt ferð til Kaliforníu í næsta mánuði, að því er talið er í þeim tilgangi að finna sér nýtt heimili. Þau munu þó enn hafa aðsetur í Bretlandi.
Meghan, sem er fædd og uppalin í Kaliforníu, lýsti í nýlegri heimildarmynd að umfjöllun fjölmiðla hafi haft teljandi áhrif á sálarlíf sitt. Þau hjónin sögðust bæði vilja flytja frá Bretlandi og ferðuðust meðal annars til Suður-Afríku þar sem þau leituðu sér að nýju heimili.
Þau áform virðast hins vegar hafa farið um þúfur því þau hafa skipulagt ferðalag til Bandaríkjanna í nóvember og fullyrða breskir fjölmiðlar að ástæðan séu fyrirhugaðir flutningar þeirra. Þetta verður í fyrsta sinn sem Archie litli, sonur þeirra, fær að upplifa heimaslóðir móður sinnar en fjölskyldan hyggst verja þakkargjörðarhátíðinni með móður Meghan.
Breskir fjölmiðlar segjast jafnframt hafa heimildir fyrir því að konungsfjölskyldan sé afar áhyggjufull yfir áformum hjónanna um að flytja af landi brott og telja að um sé að ræða vísbendingu um að hjónin vilji losna undan konunglegum skyldum sínum.