Bandaríska hertogaynjan Meghan Markle hefur lagt inn formlega kvörtun til breska ríkisútvarpsins vegna orðalags í fréttaumfjöllun um sigur hennar í málaferlum gegn breska götublaðinu Daily Mail.
Í umfjöllun The Sun um málið segir að hertogaynjan geri athugasemdir við orðalag sjónvarpsmannsins Amol Rajan í heimildarmynd BBC um málaferli hennar. Sagði Amol í myndinni að hertoganyjan hefði beðist afsökunar á því að hafa afvegaleitt dómara í málinu.
Ræddi Amol þar fullyrðingar Meghan Markle um að hún hefði hvergi komið nærri skrifum rithöfundarins Omid Scobie sem skrifaði bókina Finding Freedom um hjónin. Síðar fullyrti Jason Knaupf, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Meghan að hann hefði þvert á móti átt milligöngu um að koma ábendingum til Scobie vegna bókarinnar.
BBC leiðrétti ummælin
Í kjölfar ummæla Amol kvartaði Meghan. Hefur BBC nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem ummælin hafa verið leiðrétt.
„Hertogaynjan af Sussex hefur beðið okkur um að koma því á hreint að hún bað dómara afsökunar fyrir að muna ekki eftir tölvupóstsamskiptum sínum við fyrrverandi fjölmiðlafulltrúa sinn Jason Knauf þegar hún bar á borð sönnunargögn og sagðist ekki hafa ætlað sér að villa um fyrir dómurunum.“