Samfélagsmiðlar loga eftir að nýjar myndir birtust af Meghan Markle, hertogaynjunni af Sussex, í göngutúr með son sinn Archie og hundana sína tvo. Tak Meghan á Archie virtist vekja hvað mesta athygli og hefur hún verið gagnrýnd harðlega fyrir að gæta ekki fyllsta öryggis þegar kemur að syni hennar.
„Getur einhver sýnt Meghan hvernig á að nota burðarpoka áður en Archie dettur úr honum!“ skrifaði einn áhyggjufullur Twitter notandi. „Archie lítur út fyrir að líða óþægilega, kannski að einn af vopnuðum vörðum Meghan gæti aðstoðað hana með hvolpinn,“ skrifaði annar.
Fylgst með hverju skrefi hertogaynjunnar
Það er óhætt að segja að fylgst sé með hverri hreyfingu hertogaynjunnar en þetta er ekki í fyrsta skipti sem netverjar úthúða Meghan fyrir tak sitt á Archie. Athugasemdirnar sem sjást víða nú minna margar hverjar á þær sem féllu í síðasta skipti. Þá var Archie aðeins tveggja mánaða gamall og fjölskyldan hafði skellt sér á pólóleik.
Netverjum þótti móðurhlutverkið ekki farast Meghan vel úr hendi. „Getur einhver sýnt Meghan hvernig á að halda á barni?“ skrifar einn.

Sérfræðingar komu til varnar
Uppeldisfræðingar hafa þó komið hertogynjunni til varnar og segja Archie vera fullkomlega öruggan í burðarpoka sínum. Eina vandamálið hafi verið að hægri ólin á burðarpokanum hafi runnið niður öxl leikkonunnar. Það ættu flestir uppteknir foreldrar að kannast við.
Meghan sjálf virðist kampakát á myndunum og virðist njóta lífsins í Kanada. Harry Bretaprins lenti í dag í Vancouver í Kanada en hann hafði verið aðskilin Meghan og syni sínum síðastliðnar tvær vikur. Hjónin ætla sér að hefja nýtt líf í Kanada en á laugardaginn var það tilkynnt að þau myndu segja sig frá opinberum skyldum innan bresku konungsfjölskyldunnar.
