Hertogaynjan Meghan Markle birtist óvænt á bresku tískuverðlaununum og hefur hún hlotið mikið lof fyrir útlit sitt og framkomu á verðlaunahátíðinni en Meghan skartaði fallegri óléttukúlu og þá braut hún einnig gegn hefðum konungsfjölskyldunnar með því að vera með svart naglalakk, að því er People's Magazine greinir frá.

Þar kemur fram að drottningin hafi það fyrir venju að birtast einungis með nokkurskonar ljósbrúnt naglalakk sem skeri sig ekki um of úr frá útliti hennar að öðru leyti og hefur mágkona Meghan, Kate Middleton til að mynda gengið í fótspor drottningarinnar.

Meghan er þó lítið gefin fyrir slíkar venjur og var í glæsilegum svörtum kjól með svarta naglalakkið sitt í gærkvöldi en kjóllinn var hannaður af fatahönnuðinum Clair Waight Keller sem hannaði einnig brúðarkjól hennar. Ákvörðun Meghan og útlit vakti mikla athygli á samfélagsmiðlinum Twitter, líkt og má sjá hér að neðan og er Meghan af mörgum talin færa konungsfjölskylduna hraðbyri inn í 21. öldina.

Allt frá því að ljóst var að Harry Bretaprins var að hitta Meghan hefur hún vakið gífurlega athygli en bresku götublöðin staðhæfðu nýlega að kastast hefði í kekki á milli Meghan og Kate Middleton en fyrrverandi forsetafrúin Michelle Obama hefur ráðlagt Meghan að flýta sér hægt hvað varðar opinber verkefni fyrir konungsfjölskylduna.

Sjá má fleiri myndir af hertogaynjunni hér fyrir neðan.