Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt sem Magga Stína, flutti úrval laga eftir Megas, mörg hver sem samin við ljóð Halldórs Laxness, í kvöld. „Þetta er hluti af stofutónleikum sem eru alltaf haldnir á sumrin í Gljúfrasteini,“ sagði Magga Stína í samtali við Fréttablaðið en hún kom fram ásamt Daníel Friðriki Böðvarssyni, gítarleikara.

„Ég hef svolítið verið að flytja lög eftir Megas. Hann semur yfirleitt bara lög við eigin texta sem hefur verið uppistaðan í hans ferli en svo hefur hann einnig samið lög við ljóð Halldórs Laxness.“ Magga Stína flutti í kvöld blöndu af ljóðum Halldórs og texta Megasar við lög Megasar.

Gott að hafa góða að

Megas lét sig að sjálfsögðu ekki vanta á stofutónleikana og aðspurð sagði Magga Stína hann hafa skemmt sér vel. „Svo sagði hann en ég sel það nú ekki dýrar en ég keypti það,“ bætti hún við.

Að sögn Möggu Stínu hefur Megas ætíð verið henni mikill stuðningur. „Hann er svo mikill klettur.“ Hún segir það ætíð vera gott að hafa hann nærri, „sérstaklega á stundum líkt og þessari.“  

Heimildir herma að gestir tónleikana hafi unað sér vel við ljúfa tóna Möggu Stínu og Daníels en einstaklega hugguleg stemmning myndast þegar svo mikil nánd er milli áhorfenda og tónlistafólks.

Magga Stína hreif áhorfendur með sér á tónleikunum í dag.
Fréttablaðið/Valgarður
Hér má sjá þá frændur Halldór Laxness (t.v) og Megas (t.h).
Fréttablaðið/Valgarður